Fimmtudagur 3. júní 1999

154. tbl. 3. árg.

ron_paul.gif (26597 bytes)
ron_paul.gif (26597 bytes)

Í maíhefti tímaritsins Reason er meðal annars stutt viðtal við bandaríska fulltrúadeildarþingmanninn Ron Paul. Paul þessi er repúblikani og hefur setið í fulltrúadeildinni fyrir Texasríki frá árinu 1996 en áður hafði hann átt þar sæti frá 1978-84. Þegar kemur að afgreiðslu lagafrumvarpa fylgir Paul einfaldri reglu; hann skoðar hvert einasta frumvarp í ljósi þeirra loforða sem hann gaf áður en hann settist á þing og greiðir atkvæði samkvæmt því. Og þar sem Paul hafði lofað að hækka aldrei skatta og auka aldrei opinber útgjöld er hann á móti svo til öllum frumvörpum sem koma fram.

Í viðtalinu kemur fram að Paul þykir sem stöðugt sígi á ógæfuhliðina í Bandaríkjunum. Skattar hækki, reglugerðum fjölgi og stöðugt sé sótt að persónufrelsi einstaklinganna. Stafi þetta ekki síst af því að stjórnlyndir þingmenn í hópi repúblikana taki oft höndum saman við demókrata og komi í veg fyrir að niðurskurðartillögur nái fram að ganga. Einnig taki þessir hópar sig saman um að auka útgjöld til hugðarefna sinna og nefnir Paul þar sérstaklega mikil ríkisframlög til lista og menningarmála. Þar fáist ekkert að gert þar sem lítill hluti repúblikana hafi gert þau að sínu hjartans máli.

Þau vandamál sem þingmaðurinn lýsir eru ekki sérstök bandarísk meinsemd. Víða um heim er sama þróun, hærri skattar, gríðarleg aukning reglna og lagafyrirmæla og linnulítil opinber framlög til hugðarefna þingmanna. Þess vegna eru þingmenn eins og Paul mikilvægir á hverju þingi. Paul er í viðtalinu spurður hvernig honum gangi að semja við aðra þingmenn og er því fljótsvarað. Hann semur ekki. Hvenær ætli komi að þeim tíma að íslenskur stjórnmálamaður – hvort sem er á þingi eða í sveitarstjórn – segi „hingað og ekki lengra“ og geri loforð Rons Pauls að sínum? Greiði alltaf atkvæði gegn auknum útgjöldum og auknum sköttum. Ekki bara stundum, ekki bara yfirleitt, heldur alltaf. Undantekningarlaust.

Stjórn Veitustofnana Reykjavíkur ákvað í gær að hækka gjaldskrá rafmagns um 3% og hita um 4,6%. Helgi nokkur Hjörvar situr í stjórn veitustofnana og lofaði því einmitt fyrir hönd R-listans að hækka ekki gjöld á borgarbúa.