Kínverska lögreglan hefur bannað hótelum í Peking að sýna CNN til 8. júní. Kínverska lögreglan er einnig búin að klippa út greinar og myndir úr erlendum dagblöðum sem berast á hótelin um þessar mundir. Ástæðan er að í dag eru 10 ár frá því kínverskir hermenn réðust á friðsama mótmælendur á Torgi hins himneska friðar. Og herinn notaði ekki vatn og táragas til að sundra mannfjöldanum heldur byssukúlur og skriðdrekabelti. Ekki er ljóst hve margir létu lífið en þeir voru mörg hundruð.
Þessa dagana sitja kínverskir lögreglumenn svo fyrir utan heimili og vinnustaði ættingja þeirra sem voru myrtir fyrir 10 árum. Símalínur til fólksins hafa verið rofnar og það fær jafnvel ekki að yfirgefa heimili sín. Hinir ríkisreknu kínversku fjölmiðlar segja hvorki fréttir af atburðunum fyrir 10 árum né af þeim ofsóknum sem stjórnarandstæðingar mega þola.
Svo virðist sem í Bandaríkjunum, eins og víðar, hafi áróður umhverfisöfgasinna ekki sömu áhrif og fyrr. Árið 1989 sagðist 51% Bandaríkjamanna hafa talsverðar áhyggjur af meintum áhrifum eyðingar ósonlagsins, en þetta hlutfall var aðeins 40% árið 1997. Svipaða sögu er að segja um áhyggjur af auknum lofthita, 35% höfðu áhyggjur af honum árið 1989 en aðeins 24% átta árum síðar. Fólk virðist almennt farið að átta sig á úlfur! úlfur!-áróðrinum og tekur ekki mark á þeim sem látlaust mála skrattann á vegginn án þess að nokkurt efni sé til upphrópananna. Þeir sem sagt hafa áratugum saman að jörðin sé að kólna, að hagvöxtur sé að hverfa, að heimurinn fari að svelta eða að jörðin sé að hitna eru ekki lengur trúverðugir í hugum almennings. Þess vegna er enn von til að umræður um umhverfismál komist loks á skynsamlegt plan eftir að hafa verið í upphrópanastíl í áratugi.