Miðvikudagur 2. júní 1999

153. tbl. 3. árg.

Í Vísbendingu vikunnar er grein um fyrirlestra sem David Friedman og Anthony Giddens héldu hér á dögunum. Um boðskap þeirra segir í niðurlagsorðum greinarinnar: „Boðskapur þeirra endurspeglast kannski í þeim gestum sem mættu á fyrirlestrana. Hjá Giddens mátti sjá marga af mætari hugmyndafræðingum fortíðarinnar hér á landi, kjarnan úr Samfylkingunni og fræðimenn Háskólans. Hjá Friedman var meðalaldurinn hins vegar sennilega 15 árum lægri þar sem hugbúnaðarmenn og ungir hagfræðingar voru í meirihluta. Þá er bara að vita hvor hefur betri sýn inn í framtíðina.“

Fylkingin lofaði hækkun á bensínsköttum í málefnaskrá sinni kæmist hún til valda. Þeir sem sitja nú í ríkisstjórn og voru að hækka bensínskattana gagnrýndu Fylkinguna einmitt fyrir þetta loforð. Svo fráleitt þótti þetta loforð Fylkingarinnar í kosningabaráttunni að talsmenn hennar reyndu að bera það til baka nokkrum dögum fyrir kosningar. En það má segja að Fylkingin hafi fengið þessu stefnumáli sínu framgengt á fyrsta degi nýrrar ríkisstjórnar. Forystumenn ríkisstjórnarflokkanna töluðu raunar látlaust um það fyrir kosningar að ekki mætti raska þeim áætlunum sem fólk og fyrirtæki hefðu gert. Hækkun á bensínskatti raskar áætlunum bæði einstaklinga og fyrirtækja, ekki síst þegar henni er skellt á um leið og öðrum hækkunum á bensíni og ökutækjatryggingum og allar vísitölur sem lán eru tengd við æða af stað.