Þriðjudagur 1. júní 1999

152. tbl. 3. árg.

Í þýskum fjölmiðlum má oft lesa fréttir þess efnis að bensíngjald hafi hækkað eða að til standi að það hækki. Þar er því kennt um að græningjar komust til valda ásamt jafnaðarmönnum. En hverju er um að kenna bensíngjaldshækkuninni hér á landi, þar sem hægri-miðju stjórn situr við völd og græningjar og aðrir yfirlýstir skattahækkunarsinnar eru utan stjórnar? Hvers vegna tekur fjármálaráðherra ákvörðun um að hækka bensín um 1,35 krónur á lítrann? Er ástæðan sú ein að Sjálfstæðisflokkurinn lofaði að hækka ekki skatta eftir kosningar? Það loforð hélt a.m.k. ekki nema einn virkan dag af lífi ríkisstjórnarinnar.

Stuðningsmenn þess að ríkið eyði þúsundum milljóna króna í ríkistónlistarhúsmisskilja stundum svo rækilega sjónarmið þeirra sem halda vilja aftur af ríkisútgjöldum að við liggur að mönnum detti í hug að um vísvitandi misskilning sé að ræða. Dæmi um þetta má sjá í nýjasta pistli menntamálaráðherra, en þar segir: „Einnig sé ég, að aðstandendur Vef-þjóðviljans hér á netinu segja mér stríð á hendur vegna tónlistarhússins og opinberra útgjalda til þess.“ Hið gagnstæða er vitaskuld raunin. Menntamálaráðherra og aðrir baráttumenn fyrir byggingu þessa dýra húss hafa sagt skattgreiðendum – og þar með einnig aðstandendum Vefþjóðviljans – stríð á hendur með því að beita öllum brögðum til að fá að kafa dýpra í vasa þeirra.

Í DV í gær er heilsíðuauglýsing frá fjórum fyrirtækjum í tilefni sögvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva þar sem segir: „Úrslitin sanna að við Íslendingar erum á miklu hærra menningarstigi en aðrar Evrópuþjóðir.“ Fyrirtækin sem gáfu þetta sýnishorn af „menningarstigi okkar Íslendingar“ eru DV, Ríkissíminn-GSM, Toyota og Ríkissjónvarpið. Hvort átti fólk að hlæja eða gráta við lestur auglýsingarinnar?