Mánudagur 31. maí 1999

151. tbl. 3. árg.

Heimdellingar hafa verið að skrifa í blöðin undanfarna viku og minna landsmenn á skattadaginn sem var í gær. Skattadaginn ber upp á þann dag sem landsmenn hætta að vinna fyrir hið opinbera og fara að vinna fyrir sjálfa sig. Heimdellingar hafa reiknað út að það taki landsmenn nú 150 daga að vinna fyrir skyldugreiðslum til hins opinbera og lífeyrissjóða. Skattadagurinn hefur færst til undanfarna tvo áratugi. Lengstum seig á ógæfuhliðina enda voru landsmenn „aðeins“ til 10. maí að vinna fyrir sköttunum árið 1981 en til 10. júní árið 1994. Síðustu árin hefur skattdagurinn mjakast í rétta átt og var kominn á 29. maí í fyrra en er nú 31. maí. Þetta þýðir einfaldlega að á síðasta ári var vöxtur útgjalda ríkis og sveitarfélaga meiri en vöxtur landsframleiðslunnar. Það er afleitt. Enn sannast að þegar kosningar til Alþingis og sveitarstjórna eru framundan er eins og allar flóðgáttir úr opinberum sjóðum ljúkist upp.
Vef-Þjóðviljinn birti fyrir tveimur árum skífurit sem sýnir hvernig útgjöld heimilanna skiptast á milli skatta og annarra liða. Það ár var skattadagurinn 4. júní. Þá sagði í Vef-Þjóðviljanum: „Eins og kemur fram á skífunni eru skattar langstærsti útgjaldaliður heimilanna eða 42,0% og eru ríflega þrefalt stærri en húsnæðis- og innbúskostnaður og nær fjórfalt stærri en kostnaður við mat og drykk. Það þarf því vart að koma á óvart þótt margir líti á undanskot frá skatti sem vænlegust tekjuöflunarleiðina. Þar eru greinilega langmestu peningarnir!“
Þessi orð eru því miður enn í fullu gildi.

Vef-Þjóðviljinn gerir þá kröfu til stjórnarandstöðunnar á Alþingi að hún andmæli kröftuglega þegar útgjöld ríkisins eru aukin án gildrar ástæðu. Á föstudaginn var ráðherrum í ríkisstjórn Íslands fjölgað án þess að stjórnarandstaðan, að Guðmundi Árna Stefánssyni undanskildum, léti í sér heyra svo nokkru næmi. En það kann þó að eiga sér þá skýringu að þessi sama stjórnarandstaða gerði á síðasta kjörtímabili hvað eftir annað athugasemdir við það að sami ráðherrann sinnti tveimur ráðuneytum. Stjórnarandstaðan lagði mikið upp úr því að gera Guðmund Bjarnason þáverandi umhverfis- og landbúnaðaráðherra tortryggilegan vegna þess að hann var ráðherra beggja ráðuneytanna. Það má því segja að með fjölgun ráðherra hafi stjórnarandstöðunni orðið að ósk sinni!