Helgarsprokið 30. maí 1999

150. tbl. 3. árg.

„Vald spillir, gerræðisvald gerspillir,“ eru þekkt orð sem höfð eru eftir Acton lávarði. Nú hefur verið sett upp heimasíða með einkunnarorðunum „vald drepur, algert vald drepur algerlega“ en höfundur hennar er Rudolph. J. Rummel prófessor emeritus í stjórnmálafræði. Hann hefur einnig ritað bókina Death by Government, og fjallar hún líkt og heimasíðan um hræðilegar afleiðingar þess þegar ríkinu er falið of mikið vald yfir einstaklingunum.

deathby.jpg (5534 bytes)
deathby.jpg (5534 bytes)

Rummel hefur rannsakað hversu margir einstaklingar hafa látið lífið af völdum ríkisins á friðartímum. Kemst hann að þeirri niðurstöðu að sú tala sé um 300 milljónir og þar af hafi rúmar 170 milljónir látið lífið á þessari öld. Í styrjöldum hafa hins vegar „aðeins“ fallið 38 milljónir á þessari öld. Að sögn Rummels var kommúnistastjórnin í Sovétríkjunum stórtækust í morðum á eigin borgurum, en hún drap 62 milljónir manna, mest í Gulaginu alræmda. Kínverskir kommúnistar eru í öðru sæti á þessum miður geðfellda lista með 35 milljónir manna á samviskunni. Þar að auki létust 27 milljónir úr hungri vegna kolrangrar efnahagsstefnu Maos formanns, en hann átti líka sinn þátt í 35 milljónunum fyrrnefndu.

Hlutfallslega voru kommúnistar Pol Pots í Kambódíu verstir, að sögn Rummels, en þeir drápu þriðjung þjóðarinnar, eða 2 milljónir manna, á árunum 1975-79. Þeir drápu t.d. alla sem töluðu erlent tungumál reiprennandi eða voru langskólagengnir, svo dæmi um tvo alvarlega „glæpi“ séu nefnd. Að auki drápu kommúnistastjórnnirnar í Afganistan, Albaníu, Búlgaríu, Tékkóslóvakíu, Eþíópíu, Austur-Þýskalandi, Ungverjalandi, Laos, Mongólíu, Mosambik, Níkaragúa, Póllandi, Rúmeníu, Víetnam, Júgóslavíu og á Kúbu milljónir manna. Allt í allt áætlar Rummel að kommúnistaríki hafi drepið yfir 110 milljónir manna og að auki hafi tugir milljóna fallið í styrjöldum af þeirra völdum.

Hitler er sem kunnugt er með stórtækustu fjöldamorðingjum sögunnar og er flestum kunnugt um að í stjórnartíð þjóðernissósíalisma hans voru 6 milljónir Gyðinga drepnar. Að sögn Rummels er færri kunnugt um að alls féllu um 20 milljónir af völdum Hitlers.

Það sem Rummel segir þær ríkisstjórnir eiga sameiginlegt sem drepið hafa þúsundir eða milljónir borgara sinna er að þær eru ólýðræðislegar og hafa of mikil völd. Lýðræði og frelsi einstaklinganna sé nauðsynlegt til að tryggja öryggi þeirra. En það sem hann segir hafa komið sér mest á óvart við þessar rannsóknir er tvennt: Annars vegar umfang drápanna og hversu létt menn virðast eiga með að skipuleggja fjöldamorð. Hins vegar segir hann að sér hafi sem stjórnmálafræðingi orðið illa brugðið, þegar hann sá að stjórnmálafræðingar hafi nánast hvarvetna talað fyrir auknum umsvifum og völdum hins opinbera.

Þess má að lokum geta að Rummel var ekki alla tíð þeirrar skoðunar sem hann er í dag. Þegar hann hóf rannsóknir sínar var hann jafnaðarmaður og hann segir að þá hafi hann ekki haft trú á því sem hann hefur síðan komist að, þ.e. að frelsi einstaklingsins vegi þyngst þegar skýra eigi orsakir friðar og að yfirgangur hins opinbera skýri best það ofbeldi sem hefur átt sér stað í sögunni. Hann segir að rannsóknir sínar hafi leitt til þess að nú líti hann á sig sem frjálshyggjumann.