Laugardagur 29. maí 1999

149. tbl. 3. árg.

Halldór Jónsson verkfræðingur ritar hressilega grein í Morgunblaðið á fimmtudaginn þar sem hann ber saman ýmislegt í Bandaríkjunum og hér á landi. Halldór segir okkur Íslendinga hafa notið góðs af samskiptum okkar við Bandaríkjamenn en við kunnum ekki gott að meta. „Við launum þeim með því að leggja hærri tolla á bandarískar vörur en evrópskar og tala illa um þá. Samt eigum við miklu fleiri frændur í Vesturheimi en krata í Brussel.“

Halldór hefur líka fundið út að hér á Íslandi séu lífsnauðsynjar p sinnum dýrari en í Bandaríkjunum. „Hér kostar bensínlítrinn meira enn gallónið kostar þar. Pífaktorinn gildir um nýjan Bjúikk. Hann er pí sínnum dýrari hér en þar. Pífaktorinn gildir um alla kjötvöru. Ekkert ket fæst á Íslandi, sem ekki er pí sinnum dýrara en í Ameríku. Pífaktorinn gildir um flesta aðra átvöru og heimilisvöru sem hér fæst. Það kostar pí sinnum meira fljúga með Flugleiðum héðan til Orlando heldur en með sama félagi frá Orlando og hingað. Dagleg útgjöld mín í mat og drykk voru pí sinnum lægri í Flórída en hér. Vínið á Íslandi er hins vegar tvisvar sinnum pí sinnum dýrara en þar.“,segir Halldór í grein sinni.

Halldór veltir því næst fyrir sér ástæðunum fyrir þessum mikla verðmun hér og vestan hafs. Hann nefnir að virðisaukaskattur sem er 6% í Bandaríkjunum en 24,5% en það dugi ekki til að skýra þennan mun. En virðisaukaskatturinn hefur auðvitað sitt að segja enda leggst hann á vöruverð eftir að flutningskostnaður, tollar, vörugjöld og álagning hafa bæst við verðið. Virðisaukaskatturinn magnar þessa þætti upp. Ef dæmin sem Halldór nefnir eru skoðuð kemur í ljós að ríkið er sökudólgurinn í felstum tilfellum. Bensínið er ofurskattagt af ríkinu sem hirðir um 75% útsöluverðs. Bjúikkinn ber 60% vörugjald og svo 24,5% virðisaukaskatt. Innflutningur á kjötvöru er einfaldlega bannaður sem skýrir okrið á kjöti hér. Sömu sögu er að segja af flestum öðrum ferskvörum. Um vínið má segja það sama og bensínið. Stjórnmálamennirnir 63 sem sitja á Alþingi eiga sök á p okrinu hér.

Það var verið að mynda nýja ríkisstjórn. Í málefnasamningi hennar er hvergi minnst á að leiðrétta eigi þetta ríkisokur.