Föstudagur 28. maí 1999

148. tbl. 3. árg.

Hætt er við að margir þrýstihópar hafi andað léttar í gærkvöldi. Þá lagði þingflokkur Sjálfstæðisflokksins til að Björn Bjarnason yrði menntamálaráðherra enn um skeið. Það þýðir að minnsta kosti tvennt. Í fyrsta lagi er ljóst að menntamálaráðuneytið mun vinna af fítonskrafti að því markmiði að „tónlistarhús“ verði reist á kostnað skattgreiðenda, jafnvel þó þetta „hús“ myndi kosta þúsundir milljóna króna, og ráðuneytið mun nota öll brögð til að ná þessu markmiði sínu. Í öðru lagi þýðir þessi niðurstaða það, að nú bíður allra frjálslyndra manna – og er hér ekki átt við Sverri Hermannsson – hörð varnarbarátta gegn þessu húsi á næstu mánuðum og árum. Sú barátta mun ekki einungis snúast um þá milljarða króna sem menntamálaráðherra vill að skattborgarar leggi til þessa húss sem hann vill byggja. Í baráttunni um tónlistarhúsið verður tekist á um aðgang þrýstihópa að ríkissjóði. Hver sem niðurstaðan verður er ljóst að með henni verða þrýstihópum send þau skilaboð sem þeir munu ekki misskilja.

Nú þegar Sturla Böðvarsson er að verða samgönguráðherra rifjast upp fyrir mönnum nýleg krafa sveitarstjórna vestan Kolgrafarfjarðar á norðanverðu Snæfellsnesi um að fjörðurinn verði „þveraður“. Það sem um ræðir er að Ólafsvík, Grundarfjörður, Hellissandur og Rif, sem samtals hafa um 2500 íbúa, sætta sig ekki við að vegurinn fyrir fjörðinn verði „einungis“ malbikaður fyrir 165 milljónir króna eins og gert er ráð fyrir á vegaáætlun, heldur vilja að fjörðurinn verði brúaður, sem væntanlega mun kosta mun hærri upphæð. Með brúnni mundu íbúarnir spara sér 7,5 km. akstur þegar þeir skryppu til Stykkishólms.

Ástæðan fyrir því að þetta rifjast upp fyrir mönnum er sú að Sturla Böðvarsson er þingmaður Vesturlands og þar með þeirra sem búa á utarlega á norðanverðu Snæfellsnesi. Það má því líklega sjá á því hvernig hann tekur á þverun Kolgrafarfjarðar hvort  hann verður ráðherra alls landsins með því að nýta fjármuni skynsamlega og sýna aðhald í fjármálum, eða hvort hann mun verða í kjördæmapotinu vinsæla.