Þriðjudagur 25. maí 1999

145. tbl. 3. árg.

Rætt var við Halldór Guðmundsson framkvæmdastjóra auglýsingarstofnunnar Hvíta hússins í Morgunblaðinu síðastliðinn sunnudag. Halldór var virkur í starfi Alþýðubandalagsins fyrr á árum, m.a. framkvæmdastjóri þess fyrsta árið eftir stofnun þess 1968. Í dag gefur Halldór vinstri flokkunum eftirfarandi einkunn: „Stöðugleiki undanfarinna ára, lágt verðbólgustig og vaxtalækkanir hafa fært launafólki meiri launabætur en áður hefur þekkst. Launafólk í dag er upp til hópa fólk sem á sínar íbúðir og bíla og telur stöðugleikann upp úr launaumslaginu í hverjum mánuði. Staðreyndin er nefnilega sú að verðbólgu- og þenslustefna vinstriflokkanna hefur á undanförnum árum og áratugum valdið fólki þungum búsifjum og beinlínis gert fjölda fólks eignalaust.“

Halldór segir frá því að veturinn 1985-86 hafi orðið straumhvörf í lífi hans en þá barðist skipafélagið Hafskip fyrir lífi sínu. Um framgöngu tveggja þingmanna Alþýðubandalagsins sem nú eru orðnir forseti lýðveldisins og sendiherra hefur Halldór þessi orð: „Þingmenn Alþýðubandalagsins, Ólafur Ragnar Grímsson og Svavar Gestsson, fengu óheftan aðgang að ræðustól Alþingis til að vega að Hafskip og endurflytja bullið og upplognar sakir úr Helgarpóstinum.“

„Þessi pólítísku ómerkilegheit veturinn 1985-86 verkuðu á mig eins og lost og það má segja að ég hafi lamast í pólítískum skilningi. Mér var gjörsamlega óskiljanlegt hversu langt var seilst til að koma höggi á pólítíska andstæðinga og reyndar líka samherja eins og Guðmund jaka. Síðar þegar öllum var ljóst að Ólafur Ragnar og Svavar höfðu farið offari bitu þeir höfuðið af skömminni með því að koma á flot þeirri kenningu að ákveðin öfl innan Sjálfstæðisflokksins og Eimskip hefðu skipulagt atlöguna!“

Á verksviði félagsmálaráðuneytisins eru ýmis mál sem ástæða er fyrir næsta félagsmálaráðherra til að taka til endurskoðunar. Þar má t.d. nefna að rekstur opinbers húsnæðislánakerfis er „óðum að verða tímaskekkja“ eins og einn félagsfræðinga Íbúðalánasjóðs orðaði það í samtali við Dag-Tímann fyrir helgi. Hafi einhvern tímann verið ástæða fyrir ríkið að hafa afskipti af húsnæðiseign landsmanna (sem er afar hæpið) er þó óhætt að taka undir að í dag á það ekki við. Gerbreytt fjármálakerfi gerir það að verkum að einkaaðilar eiga auðvelt með að bjóða upp á fjármögnun húsnæðis og eru þegar farnir að gera það, þrátt fyrir samkeppni við hið opinbera. Næsti félagsmálaráðherra ætti því að koma ríkinu út úr húsnæðislánum á kjörtímabilinu.

Frjáls aðild að verkalýðsfélögum er annað mál sem félagsmálaráðherra hlýtur að beita sér fyrir, enda er þar um aðra tímaskekkju að ræða sem forystumenn í verkalýðsfélögum eru jafnvel hættir að mæla bót. Að menn séu í raun skyldaðir til aðildar að félögum á borð við verkalýðsfélög – og Stúdentaráð Háskóla Íslands svo annað dæmi sé nefnt – nær auðvitað engri átt og verður að breytast.