Miðvikudagur 26. maí 1999

146. tbl. 3. árg.

Viðskiptahalli hefur verið nokkuð til umræðu að undanförnu. Er almennt gert ráð fyrir að hann sé ekki æskilegur þótt framkvæmdir sem fjármagnaðar eru með honum geti lagt grunn að frekari velsæld. Hvort þessar fjárfestingar skila arði kemur auðvitað síðar í ljós. Íslendingar hafa áður ráðist í framkvæmdir með erlendu lánsfé án þess að þær fjárfestingar hafi staðið undir sér. En ýmislegt bendir til þess að fjárfestingar séu gerðar af meiri fyrirhyggju nú en oft áður. Skiptir þar miklu máli að hið opinbera er minni þátttakandi í atvinnulífinu en áður og fyrirtæki sem áður gengu að ríkisstyrkjum vísum gera það ekki lengur.

Bjarni Bragi Jónsson ritar hugleiðingu um viðskiptahallann í Vísbendingu nýlega og í lokaorðum sínum segir hann: „Hugleiðingar þessar leiða til þeirrar niðurstöðu að viðskiptahallinn sé ekki síst velsældarmerki sem jafnframt ber með sér ýmis gamalkunn einkenni góðærisvanda. Slíkur vandi er ekki bráðaðkallandi né þess eðlis að fólk og fyrirtæki neyðist til að snúast við honum, svo sem þá er kreppir að.“

jordin.gif (2512 bytes)
jordin.gif (2512 bytes)

Mikilvægasta verkefni utanríkisráðherra næstu ríkisstjórnar verður að gæta þess að Ísland dragist ekki inn í ESB og að engin þau skref verði stigin sem auki líkur þess að við endum inni í því bákni. Við Íslendingar höfum sérstaka ástæðu til þess umfram aðrar þjóðir að halda okkur utan ESB, en hún er vitaskuld að við viljum ekki að ESB stjórni fiskveiðum hér við land. En þó svo ólíklega vildi til að ESB breytti um stefnu og leyfði okkur að sjá um þau mál þrátt fyrir aðild væri samt full ástæða að vera áfram utan sambandsins. Sá þáttur í starfi ESB og hugmyndafræðinni á bak við það sem lýtur að frjálsum viðskiptum er af hinu góða, en hjá ESB fylgir því allt of mikið af reglum um alla skapaða hluti sem ekkert gera nema þvælast fyrir og draga þrótt úr atvinnulífinu auk þess að hefta frelsi manna. Við getum nú þegar átt frjáls viðskipti við ríki innan ESB og nær væri t.d. að kanna aðild að NAFTA eða nánari tengsl við það fríverslunarbandalag en velta vöngum yfir aðild að ESB.

Á tyllidögum tala stjórnmálamenn gjarnan um minnkandi heim, bætta samskiptatækni, að vegalengdir séu að engu orðnar og að upplýsingaöld sé gengin í garð. Allt er þetta rétt, en virðist þó hafa farið fram hjá utanríkisráðuneytinu, því utanríkisþjónustan hefur bólgnað út og sífellt er verið að stofna ný sendiráð hér og þar. Má þar nefna í Kína kommúnismans og Kanada (en af einhverjum óskiljanlegum ástæðum var Svavar Gestsson sendur til Kanada en ekki Kína). Það hlýtur að verða verkefni næsta utanríkisráðherra að fækka sendiráðum, enda engin ástæða fyrir Ísland að vera með sendiráð út um allan heim. Það ætti að duga að hafa sendiráð eða sendinefndir á stöðum eins og New York vegna Sameinuðu þjóðanna, Brussel vegna NATO og ESB og Genf vegna WTO og EFTA. Flest önnur mega missa sín og í stað þeirra geta menn notað síma, faxtæk, tölvupóst, og jafnvel fjarfundabúnað þegar annað dugar ekki.