Laugardagur 22. maí 1999

142. tbl. 3. árg.

Það hljómaði ágætlega í kvöldfréttum í gær þegar það fyrsta sem fjármálaráðherra nefndi varðandi efnahagsaðgerðir var að gæta yrði aðhalds hjá ríkinu. Og ekki var síðra að heyra að meiri tekjuafgangur ríkisins sé æskilegur. Hins vegar var svar ráðherrans við því hvort hækka þyrfti skatta ekki endilega það sem skattgreiðendur vonuðust eftir og líklega alls ekki það sem kjósendur Sjálfstæðisflokksins hefðu búist við. Ráðherrann sagði að vísu að hann teldi ekki þörf á skattahækkunum, en bætti svo við: „Að minnsta kosti eins og sakir standa.“ Vonandi var þetta bara venjulegur pólitískur varnagli, en stjórnvöld ættu að svara spurningum um skattahækkanir mun afdráttalausar. Vitaskuld eiga skattahækkanir alls ekki að koma til greina og full ástæða er til að lækka allt of háa skatta en ekki hækka þá. Hugmyndir um að hækka skatta til að draga úr þenslu eru í besta falli úreltar. Þær efnahagsaðgerðir sem þörf er á felast í því að ríkið dragi saman seglin. Það eru þær kröfur sem gerðar eru til ríkisstjórnarinnar og þær verður hún að standast. Við þetta bætist svo að bæði formaður og varaformaður Sjálfstæðisflokksins lögðu á það mikla áherslu fyrir kosningar að raska ekki áætlunum sem fólk og fyrirtæki hafa gert. Skattahækkanir raska slíkum áætlunum.

BL00364A.gif (2111 bytes)
BL00364A.gif (2111 bytes)

Í landbúnaðarráðuneytinu (eins og því miður í öðrum ráðuneytum) bíður nýs ráðherra að draga úr afskiptum ríkisins eigi landbúnaðurinn ekki að vera í hlutverki beiningarmanns það sem eftir er. Töluvert hefur verið skorið niður á þessum áratugi, en nú er komið að því að stíga skrefið til fulls og losa landbúnaðinn við lamandi hönd ríkisins. Innflutning landbúnaðarafurða verður að gefa frjálsan, enda óréttlætanlegt að banna almenningi að kaupa þær vörur sem hann helst kýs. Vissulega verða breytingar af þessu tagi mörgum erfiðar, en landbúnaðurinn getur ekki til lengdar lotið öðrum lögmálum en annar atvinnurekstur. Hvernig væri ástandið t.d. í smávöruverslun, ef ríkið hefði tekið þann kost þegar stórmarkaðir fóru að skjóta upp kollinum, að banna þá eða niðurgreiða hverfaverslanir? Það væri svipað og í landbúnaðinum, hér væru hverfaverslanir út um allt sem væru algerlega háðar stuðningi ríkisins. En þessi leið var vitaskuld ekki farin og því höfum við í dag blómlegar verslanir eftir miklar breytingar á þessum markaði á liðnum árum.

Stærsta hlutverk næsta samgönguráðherra í vegamálum verður að standa gegn kröfum kjördæmapotara sem ólmir vija fá göng í heimabyggð sína. Þing- og sveitarstjórnarmenn bæði á Norður- og Austurlandi munu þrýsta mjög á samgönguráðherrann um þennan útgjaldaauka og til að auðvelda honum að standa gegn þessum þrýstingi þarf að geta þess í stjórnarsáttmála næstu ríkisstjórnar að ekki standi til að sóa fé í fleiri óhagkvæm jarðgöng.

BS00864A.gif (2535 bytes)
BS00864A.gif (2535 bytes)

Annað verkefni sem samgöngumálaráðherra þarf að leysa af hendi er sala Landssímans og Íslandspósts, en engin ástæða er fyrir ríkið að reka þessi fyrirtæki. Bæði fyrirtækin eiga í samkeppni við einkaaðila og sjálfsagt fyrir ríkið að þvælast ekki fyrir einkaframtakinu á þessum sviðum frekar en öðrum. Núverandi samgönguráðherra, Halldór Blöndal, hefur tekið jákvætt í hugmyndir um sölu Landssímans og því má binda vonir við að þetta sé ekki aðeins fjarlægur draumur.