Föstudagur 21. maí 1999

141. tbl. 3. árg.

blom.gif (1012 bytes)
blom.gif (1012 bytes)

Mikilvægt er að í málefnasamningi næstu ríkisstjórnar verði í umhverfismálum kveðið skýrt á um að ekki standi til að samþykkja Kyoto bókunina svokölluðu. Tvennt mælir sérstaklega gegn því að við undirritum hana. Annars vegar sú staðreynd að hún er okkur Íslendingum sérstaklega óhagstæð vegna þess að hér eru „hreinir“ orkugjafar og tiltölulega lítill útblástur gróðurhúsalofttegunda frá þeim og því erfitt að takmarka hann frekar. Hins vegar er töluverður galli á þessari Kyoto bókun, svo ekki sé kveðið fastar að orði, að hún byggir ekki á vísindalegum rökum en er þess í stað viðbrögð stjórnmálamanna við háværum hópum umhverfisöfgamanna. Það eru hvorki til fullnægjandi sannanir þess efnis að jörðin sé að hitna né heldur þess efnis að hugsanleg aukning hita væri skaðleg. Af þessum ástæðum er fráleitt að taka þátt í þeim misskilningi sem bókunin er og sjálfsagt að gera þá kröfu til íslenskra stjórnvalda að þau haldi haus í þessum efnum og láti ekki undan þrýsingi öfgamanna.

Annað sem ástæða er til að gera er að leggja niður umhverfisráðuneytið. Það hefur nú verið starfandi í áratug og ekki sýnilegt að starfsemi þess þurfi að halda áfram í óbreyttri mynd. Þeim verkefnum sem nauðsynlegt er að ríkið sinni á þessu sviði má vandræðalaust koma fyrir í öðrum ráðuneytum og spara þannig í rekstrarkostnaði og minnka báknið.

Helsta verkefni næsta viðskiptaráðherra verður að selja hlut ríkisins í Landsbanka, Búnaðarbanka og Fjárfestingarbanka atvinnulífsins. Áríðandi er að skýrt loforð sé um þessa sölu í málefnasamningi næstu ríkisstjórnar. Næsti iðnaðarráðherra ætti að hafa það á verkefnalista sínum að einkavæða Landsvirkjun og líklega færi best á því að skipta fyrirtækinu fyrst upp í nokkrar einingar og hafa framleiðslu rafmagns aðskilda frá dreifingu þess. Þar fyrir utan er rétt að dregið sé úr afskiptum og þátttöku iðnaðarráðherra í samningaviðræðum vegna hugsanlegrar byggingar iðnfyrirtækja hér á landi. Stjórnvöld eiga að skapa umhverfi sem er hagstætt atvinnurekstri, en ekki taka beinan þátt í stofnun eða starfsemi fyrirtækja.