Fimmtudagur 20. maí 1999

140. tbl. 3. árg.

Í fjölmiðlum heyrist rætt þessa dagana um hugsanlega fjölgun ráðherra eins og ekkert sé eðlilegra. Talað er um að þeim kunni að fjölga úr tíu í tólf og mun þetta eiga að þjóna þeim tilgangi að auðvelda þingflokkum Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks að velja ráðherraliðið. Vafalaust er það rétt að ef ráðherrum er fjölgað um 20% verður auðveldara að velja ráðherra því þá þarf að hafna færri þingmönnum. Valið yrði enn auðveldara ef ráðherrum yrði fjölgað um 100%, en það réttlætir ekki fjölgunina.

Ríkið á við þann vanda að etja nú sem fyrr að það vill þenjast út og eitt allra mikilvægasta verkefni hverrar ríkisstjórnar er að sporna gegn þessari útþenslu. Fjölgun ráðherra eykur hins vegar hættuna á að ríkið vaxi enn frekar en ella, enda er það yfirleitt svo með ráðherra að þeir vilja skilja eftir sig sýnileg verk. Sá ráðherra sem heldur að sér höndum er yfirleitt heppilegasti ráðherrann, en því miður vilja flestir sem gegna ráðherradómi að ríkið sé sífellt að takast á hendur ný verkefni. Af þessum sökum er mikilvægt að ráðherrar séu sem fæstir og engin ástæða er fyrir Ísland að hafa tíu, að ekki sé talað um tólf, ráðherra. Hér væri nóg að hafa 6-8 ráðherra enda hægt að sameina mörg ráðuneyti eins og vikið var að í Vef-Þjóðviljanum í gær eða leggja niður.

En það er víðar sem spara má hjá hinu opinbera. Ef marka má umræður í nefndum á vegum Reykjavíkurborgar er ekki laust við að mönnum detti í hug að þar á bæ séu stjórnmálamenn að skipta sér af alltof mörgum málum. Af handahófi má vitna í þær tvær bókanir sem gerðar voru á fundi umhverfis- og heilbrigðisnefndar Reykjavíkurborgar í síðustu viku.

Bókun Ólafs F. Magnússonar borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks um jarðvegsmanir á Geirsnefi:
„Ég tel að upphækkun í landslagi í austurhluta Geirsnefs hindri útsýni, m.a. að áramótabrennu sem nú er hefð fyrir og get því ekki stutt þessa tillögu.“

Bókun Kolbeins Proppé fulltrúa R-listans um ræktun á merki menningarborgar á Geldingarnesi:
„Ég lýsi mig alfarið á móti þeirri hugmynd að rækta upp merki menningarborgar á Geldinganesi. Ég tel að það samræmist ekki nútímaræktunaraðferðum að rækta náttúruna upp í merki til skrauts. Við eigum að beita vistvænum ræktunaraðferðum og sjá til þess að öll ræktun falli inn í náttúruna. Fordæmisgildi þess að rækta upp merki menningarborgar er einnig varhugavert.“