Miðvikudagur 19. maí 1999

139. tbl. 3. árg.

sparibaukur
sparibaukur

Það sem brýnast er að standi í málefnasamningi næstu ríkisstjórnar varðandi fjármálaráðuneytið er að ríflegur afgangur skuli vera á fjárlögum allt kjörtímabilið. Ekki nægir að aðeins verði afgangur miðað við greiðslugrunn heldur hinn nýja rekstrargrunn, enda er lítið byggjandi á þeim upplýsingum sem fram koma í uppgjöri á greiðslugrunni því inn í það vantar framtíðarskuldbindingar. Vandinn sem fjármálaráðherra mun standa frammi fyrir er að nú mun sótt að honum úr öllum áttum, ekki síst frá öðrum ráðherrum, og aukinna útgjalda krafist til alls kyns gæluverkefna. Mun þá verða vísað til þess að nú sé ástand í efnahagsmálum gott. Það er hins vegar svo að verði ekki gripið til myndarlegra aðhaldsaðgerða verður árangur þeirrar ríkisstjórnar sem nú situr fljótt að engu orðinn og væri hörmulegt fyrir flokkana sem þá verða í stjórn að fara með brunarústir einar inn í kosningar eftir að hafa tekið við þokkalega góðu búi.

Þau verkefni sem dómsmálaráðherra næstu ríkisstjórnar ætti að fara í er að endurskoða lagasetningu varðandi sjálfræðisaldur, en hann var sem kunnugt er hækkaður úr sextán árum í átján á síðasta kjörtímabili. Engin ástæða var til að svipta sextán og sautján ára unglinga sjálfræði og hefur það engan vanda leyst. Þessi mistök þarf að leiðrétta. Annað sem heyrir undir dómsmálaráðuneytið er lagasetning um ýmislegt sem flokkað er sem glæpir í dag, en eru í raun glæpir án fórnarlambs. Þarna er um að ræða vændi, fjárhættuspil, hnefaleika og fíkniefnaneyslu, en full ástæða er til að hefja undirbúning að því að aflétta banni við slíku. Menn kunna að vera þeirrar skoðunar að þetta séu lestir og vissulega ber þátttaka í þessu oft merki um mannlegan breyskleika, en á meðan allir aðilar taka þátt af fúsum og frjálsum vilja er ekki rétt fyrir ríkisvaldið að blanda sér í málið. Reynslan af afskiptum ríkisins af þessum málum er hvorki góð hér á landi né annars staðar og því er full ástæða fyrir næsta dómsmálaráðherra að beina ríkinu af þeim villigötum sem það nú er á í þessum efnum.

Ekki er útlit fyrir annað en að ríkisstjórn sömu flokka sitji áfram. Á liðnu kjörtímabili var nokkuð rætt um að það henti ekki formanni stjórnmálaflokks að vera utanríkisráðherra þar sem hann þurfi að dvelja erlendis stóran hluta kjörtímabilsins og geti ekki sinnt almennu flokksstarfi, ræktað tengslin við kjósendur í kjördæmi sínu eða brugðist skjótt við málum sem ber óvænt að. Vafalaust er utanríkisráðuneytið þyngst á metunum að forsætisráðuneytinu slepptu og því þótt eðlilegt að formaður þess stjórnarflokksins sem ekki fær forsætisráðuneytið settist í stól utanríkisráðherra. Þetta hefur verið venjan í tveggja flokka stjórnum síðustu áratuga. Með því að sameina ráðuneyti sjávarútvegs, landbúnaðar, viðskipta og iðnaðar í eitt atvinnuvegaráðuneyti væri hins vegar orðið til ráðuneyti sem hvaða flokksformaður sem er ætti að geta sætt sig við. Það væri  verðugt verkefni fyrir flokksformann að stýra þessari sameiningu.
Og það ber auðvitað að hafa í huga að framsóknarmenn segjast hafa skapað 13000 ný atvinnutækifæri á síðasta kjörtímabili. Fulltrúi þeirra hlýtur því að koma sterklega til álita í stól atvinnuvegaráðherrans.