Þriðjudagur 18. maí 1999

138. tbl. 3. árg.

bandaid.jpg (7075 bytes)
bandaid.jpg (7075 bytes)

Vef-Þjóðviljinn heldur áfram að mæla með atriðum í málefnasamning nýrrar ríkisstjórnar: Heilbrigðismál eru afar frek til fjárins og erfitt að koma í veg fyrir að útgjöld hækki. Eina leiðin til að ná tökum á útgjaldaþenslunni virðist vera að breyta kerfinu. Í dag er heilbrigðisþjónusta að langmestu leyti í höndum hins opinbera, en þessu þarf að breyta og það verk verður að hefjast á þessu kjörtímabili. Í þessu gildir hið sama og í menntamálum sem rædd voru hér á þessum síðum í gær. Nauðsynlegt er að gera skýran greinarmun á því hver greiðir fyrir þjónustuna og hver veitir hana. Þó menn kunni að vera þeirrar skoðunar að ríkið eigi að tryggja öllum nauðsynlega heilbrigðisþjónustu þýðir það alls ekki að menn verði þar af leiðandi að álíta að ríkið hljóti að eiga öll sjúkrahús landsins og vera vinnuveitandi nánast allra sem í þessum geira starfa.

Á sjúkrahúsunum er þegar í gangi vinna við að sundurgreina kostnað sem mest til að hægt sé að verja takmörkuðum fjármunum betur en hingað til hefur verið gert. En það má færa rök fyrir því að heppilegra sé að fara sömu leið í þessu eins og öðru, þ.e. láta einkaaðila vinna verkin og láta verð á frjálsum markaði beina fyrirtækjum í heilbrigðisgeiranum í hagkvæmasta farveginn. Til að raunverulegur árangur náist í heilbrigðismálum og ef ætlunin er að veita bestu mögulega heilbrigðisþjónustu, mun næsti heilbrigðisráðherra ekki geta vikið sér undan því að stíga ákveðin skref í þessa átt.

Helsta verk næsta sjávarútvegsráðherra verður að koma í veg fyrir að háværir stjórnmálamenn, sem minni áhyggjur hafa af velgengni í sjávarútvegi en sekúndum á sjónvarpsskjánum, nái að eyðileggja farsælt stjórnkerfi fiskveiða. Talað er um að ná þurfi sátt um kerfið, en þá má benda á að sá stjórnmálaflokkur sem minnst hefur talað um að breyta þurfi núverandi stjórnkerfi og er reyndar beinlínis þeirrar skoðunar að byggja þurfi á því áfram, fékk langmest fylgi í síðustu kosningum og meira en hann hefur fengið í 25 ár. Þeir flokkar sem börðust fyrir að kerfinu yrði bylt fóru illa út úr kosningunum, enda komu þeir ekki fram með neina nothæfa hugmynd um annað kerfi.

Hins vegar eru tvær breytingar sem gera má og ættu þær að geta leitt til enn meiri sátta um kerfið. Annars vegar má nefna að rétt er að útgerðin taki sjálf að sér rekstur kerfisins, þ.e.a.s. sinni sjálf rannsóknum, ákveði aflamark og haldi úti nauðsynlegu eftirliti. Þannig er hægt að draga ríkið út úr þessari starfsemi, enda eðlilegast að útgerðin sjái sjálf um þessi mál sín og greiði fyrir þetta að fullu. Þeir sem gagnrýnt hafa kerfið ættu að geta unað sáttir við slíka breytingu. Hins vegar má nefna að sá galli er á þessu kerfi að kvóti er bundinn við skip og dregur það úr hagræðingarmöguleikum. Engin ástæða er til annars en að einstaklingar og fyrirtæki geti átt kvóta án þess að eiga skipin til að veiða hann. Fyrir utan hagræðið væri með því að breyta þessu komið til móts við óskir þeirra sem látið hafa í ljós vilja til að eiga kvóta, ekki síst þeirra sem tóku þátt í happdrætti Fylkingarinnar fyrir kosningar, en þar var kvóti í verðlaun þó þátttaka í happdrættinu væri ekki skilyrt við eigendur fiskiskipa.