Helgarsprokið 23. maí 1999

143. tbl. 3. árg.

giddens.bmp (15478 bytes)
giddens.bmp (15478 bytes)

Hugmyndafræðileg vandræði vinstrimanna komu afar skýrt í ljós í vikunni sem leið með heimsókn Anthony Giddens hingað til lands, en Giddens er einn helsti hugmyndafræðingur nafna síns Blair, forsætisráðherra Bretlands. Það er langt síðan íslenskir áhugamenn um stjórnmál orðið vitni að öðru eins orðagjálfri og Giddens bauð upp á, en hugmyndir hans virðast aðallega felast í að búa til hugtök og skilgreiningar sem ekkert innihalda. Hugtök eins og hnattræn pólitík, alþjóðavæðing, nýskipan, nútímavæðing, nýtt vinstri, nýr félagslegur sáttmáli, win win-pólitík og þriðja leiðin eru ofarlega á vinsældalista Giddens og hann talar um að hinn tvípóla heimur sé liðinn undir lok, að miðjan hafi nú merkingu og svo framvegis. Þegar hann er beðinn að útskýra hvað þetta þýðir heldur talið áfram en enginn verður nokkru nær um skoðun mannsins eða þá hugmyndafræði sem hann boðar, enda ekki gott að hafa skoðanir ef menn vilja hafa alla á sínu bandi í einhvers konar „win win“ pólitík.

Giddens telur þriðju leiðina vera millileið á milli öfga hreinnar markaðshyggju og hreinnar félagshyggju eins og hann orðar það. En hvar hafa þær öfgar verið framkvæmdar? Jú, hrein félagshyggja hefur verið reynd víða og eru íbúar Norður-Kóreu þessi misserin að súpa seyðið af slíkri tilraunastarfsemi. Hrein markaðshyggja hefur hins vegar hvergi verið reynd, þannig að fyrir utan alræðisríki sósíalismans hefur einhvers konar þriðja leið verið farin. Það hefur oft verið nefnt blandað hagkerfi, en blandan hefur vitaskuld verið missterk. Það er því ekkert nýtt í tali Giddens nema fjöldi tómra hugtaka.

Hins vegar er umhugsunarvert hvað rekur félagshyggjumanninn Giddens og ýmsa skoðanabræður hans út í jafn mikið orðskrúð og vandræðagang og raun ber vitni. Hvers vegna er stór hópur stjórnmálamanna allt í einu hættur að vilja kannast við skoðanir sínar en slær þess í stað um sig með merkingarlausum orðum? Jú, ástæðan er einföld. Á níunda áratugnum fór að renna upp fyrir fólki að skoðanir vinstri manna og baráttumál þeirra leiddu ekki af sér hagsæld fyrir almenning heldur drægju úr henni. Fólk sá að ekki gekk að auka umsvif hins opinbera sífellt með hærri sköttum og fjölgun reglna. Það sem svo endanlega staðfesti að hugmyndafræði vinstri manna mundi ekki ganga upp var hrun járntjaldsins og þeirra ríkja sem höfðu einangrað sig á bak við það. Eftir fall Berlínarmúrsins hafa þeir flokkar sem kenna sig við félagshyggju leitað logandi ljósi að nýrri stefnu. Þó vilja þeir ekki viðurkenna mistök sín með því að taka upp þá stefnu sem hefur skilað mestum árangri, þ.e. þá stefnu að gefa einstaklingnum sem mest svigrúm og takmarka umsvif hins opinbera.

Leiðin sem félagshyggjumenn og flokkar þeirra hafa því farið er að búa til glamuryrði sem láta vel í eyrum, en jafnframt að fylgja engri stefnu. Kjósendur eiga vegna þessa orðið afar erfitt með að átta sig á því hvaða stefna verði framkvæmd eftir kosningar komist félagshyggjuflokkar til valda. Í nýafstaðinni kosningabaráttu hér á landi gekk einn vinstri flokkanna, Fylkingin, svo langt í þessu að annar vinstri flokkur, Vinstri grænir, hélt uppi gagnrýni á hann fyrir stefnuleysið. Í Vinstri græna höfðu safnast saman vinstri menn sem hafa skoðanir, en í Fylkingunni lögðu menn meira upp úr því að ná sem flestum þingmönnum en að setja fram trúverðuga stefnu. Hvað þetta varðar er óhætt að taka undir með Steingrími Sigfússyni þegar henn segir að „úrslit kosninganna hafi verið heilbrigðisvottorð fyrir íslenska kjósendur“. Kjósendur létu ekki selja sér tóma froðu í þessum kosningum þótt Fylkingin hafi eytt 50 milljónum króna til þess að markaðssetja hana.

Eitt af orðunum úr slagorðasafni Giddens er lýðræðisbylting. Það er hins vegar svo að framganga Giddens og áhangenda hans hér á landi og víðar, hefur fremur orðið til þess að draga úr virkni lýðræðisins en að auka hana. Þegar kjósendur vita varla hvaða kostir eru í boði er erfiðara en ella fyrir þá að koma skýrum skilaboðum á framfæri við kjörna fulltrúa. Ef sumir flokkar taka upp á því að hafa enga stefnu aðra en einhverja óskilgreinda „win win“ stefnu, þá hafa kosningar minna gildi en áður. Slík breyting hentar vissulega þeim flokkum sem orðið hafa undir í hugmyndabaráttunni en vilja þrátt fyrir það halda völdum.

Morgunblaðið tók viðtal við Giddens í gær og þar er dreginn út „kjarni þriðju leiðarinnar að mati Anthony Giddens“:

1. Endurskipulagning stjórnkerfisins. Spurningin er ekki minna eða meira kerfi, heldur virkt kröftugt kerfi.
2. Endurskipulagning hins borgaralega þjóðfélags. Efla þarf þau svið samfélagsins sem liggja utan efnahagslífsins og stjórnkerfisins.
3. Endurskipulagning hagkerfisins. Áhersla á blandað kerfi, ekki út frá gömlum skilgreiningum eignarhalds, heldur út frá lagasetningu.
4. Endurskipulagning velferðarkerfisins. Skipulag umhyggju ekki fyrirhyggju.
5. Vistfræðilegar endurbætur og nýskipan. Það er ekki rétt að vistfræðihyggja og hagvöxtur útiloki hvort annað.
6. Umbreyting hins hnattræna kerfis. Í alþjóðavæddum heimi verður að bregðast við hnattrænt, ekki aðeins staðbundið.

Er einhver einhverju nær?