Þriðjudagur 4. maí 1999

124. tbl. 3. árg.

Frambjóðendur Fylkingarinnar virðast nú telja það eitt duga til að vinna fylgi að segja það sem best hentar hverju sinni. Í gær skrifaði Margrét Frímannsdóttir í grein í DV þar sem hún segir: „Það er fullyrt að Samfylkingin ætli að hækka skatta á fólki sem hefur lágar og meðaltekjur. Það er af og frá.“

Ef að Margrét segir satt í þessari grein þá á ekkert fólk með lágar og meðaltekjur bíl. Fylkingin hefur nefnilega lofað að leggja umhverfisskatta á bensín.
Ef Margrét segir satt þá þarf enginn sem hefur lágar eða meðaltekjur að leigja sér húsnæði. En Fylkingin hefur lofað að skattleggja leigu svo að hún hækki um allt að 50%.
Ef að Margrét segir satt þá á enginn með lágar eða meðaltekjur meira en 2 milljónir króna í sparifé. Fylkingin hefur nefnilega lofað að hækka fjármagnstekjuskatt á slíku „óeðli“ úr 10% í 40%.

Fjölskyldubíllinn
Fjölskyldubíllinn

Í verkefnaskrá Fylkingarinnar fyrir næsta kjörtímabil segir: „Sett verði heildarlöggjöf um umhverfis- og mengunarskatta. Meðal þeirra er almennur koltvíoxíðsskattur til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.“ Ekki er sleginn neinn varnagli við „almenna koltvíoxíðskattinum“ í verkefnaskránni.

Útstreymi koltvíoxíðs árið 1995 skiptist þannig:
Fiskiskip 33%
Innanlandssamgöngur 32%
Iðnaðarferli 18%
Jarðhitavirkjanir 3%
Annað 14%

Það sem er einkennandi fyrir útstreymi koltvíoxíðs á Íslandi miðað við önnur ríki er hátt hlutfall útstreymis frá farartækjum og hið lága hlutfall útstreymis frá staðbundinni orkuframleiðslu. Það er því augljóst að almennur koltvíoxíðskattur leggst á innanlandssamgöngur þ.e.a.s. á bensín og gasolíu.

Í umræðuþætti á Rás 2 í gær neitaði Jóhanna Sigurðardóttir því hins vegar að bensín myndi hækka þegar stefna Fylkingarinnar um umhverfisskatta næði fram að ganga.
Ef að Jóhanna segir satt þá hefur Fylkingin fundið upp aðferð til að brenna bensíni í bílvél án þess að koltvíoxíð myndist!