Miðvikudagur 5. maí 1999

125. tbl. 3. árg.

Jóhanna Sigurðardóttir lýsti því yfir í Degi í gær að „sjálf sé hún fjármálaráðherraefni Samfylkingarinnar“ svo vitnað sé orðrétt í blaðið.

sagimex.jpg (5458 bytes)
sagimex.jpg (5458 bytes)

Það er döpur stemning í Fylkingunni um þessar mundir og skal engan undra.  Og nú hefur komið á daginn að merkinu hefur Fylkingin stolið frá hinum kunna hestavöruframeiðanda Sagimex. Eða kannast einhver við þessar tvær skeifur? Þær er að finna í merki Fylkingarinnar og þegar skoðanakannanir eru kynntar má líka sjá þær á andlitum frambjóðenda hennar.

Stefna jafnaðarmannsins Gerhards Schröders kanslara Þýskalands er töluvert nær nútímanum en sú skattahækkanastefna sem Fylkingin berst fyrir hér á landi. Þó hefur afleiðing kosningasigurs Schröders í Þýskalandi orðið sú að hann hefur í samvinnu við Græningja hækkað skatta og flækt skattalög mikið, m.a. með nýjum umhverfissköttum. Nú er svo komið þar í landi að skattgreiðendur botna hvorki upp né niður í þeim skattskýrslum sem þeim ber að fylla út og sama má raunar segja um skattstofurnar sjálfar.

Eins og allir þekkja er býsna flókið hér á landi að fylla út skattskýrslur. Þó er það barnaleikur miðað við það sem mun verða ef hótanir Fylkingarinnar um skattahækkanir, nýja skatta og fleiri skattþrep verða að veruleika. Þá munu Íslendingar, líkt og Þjóðverjar, þurfa að skila inn skattskýrslum sínum með þeim fyrirvara að þeir skilji ekki hvað verið er að biðja um og skattayfirvöld munu sjálf ekki átta sig á eigin kerfi.