Kosningaloforð Samfylkingarinnar og Vinstri hreyfingarinnar gera ráð fyrir að lagður verði 40% skattur á leigutekjur. Bæði framboðin boða hækkun á fjármagnstekjuskatti úr 10 í 40%. Ekki er ólíklegt að þessi skattur leiði til umtalsverðrar hækkunar á leigu íbúðarhúsnæðis og einnig að það dragi mjög úr framboði á leiguhúsnæði þar sem það verður ekki jafnhagstætt og áður að leigja út húsnæði.
Ef tekið er dæmi af dæmigerðri 90 fermetra íbúð sem leigð er á 55.000 kr. í dag lítur dæmið þannig út fyrir leigusalann í dag:
Leigutekjur brúttó á ári 660.000 kr.
Fjármagnstekjuskattur ár ári 66.000 kr.
Leigutekjur nettó á ári: 594.000 kr.
Ef fjármagnstekjuskattur er hækkaður í 40% lítur dæmið svona út fyrir leigusalann ef hann hækkar ekki leiguna:
Leigutekjur brúttó á ári 660.000 kr.
Fjármagnstekjuskattur á ári 264.000 kr.
Leigutekjur nettó á ári 396.000 kr.
Til að hafa sömu nettótekjur af eign sinni eftir að fjármagnstekjuskattur er hækkaður í 40% lítur dæmið svona út:
Leigutekjur brúttó á ári 990.000 kr.
Fjármagnstekjuskattur á ári 396.000 kr.
Leigutekjur nettó á ári: 594.000 kr.
Ef Samfylkingin kemst til valda og efnir loforð sitt um hækkun fjármagnstekjuskatts mun leiga á íbúðinni því hækka úr 55.000 í allt að 82.500 kr. eða um allt að 50%.
Í þessu dæmi er gert ráð fyrir að leigusalinn hafi þegar yfir 120 krónur á ári í fjármagnstekjur af öðrum eignum sínum (til dæmis 8% vexti af 1.500.000 króna sparifé) og nýti því það frítekjumark sem Samfylkingin (samkvæmt orðum Margrétar Frímannsdóttur) telur rétt af hafa á fjármagnstekjum.
Mikið af leiguhúsnæði í dag er í húsnæði sem eigendur búa sjálfir í svo sem kjallarar og ris. Vafalaust munu margir hætta af leigja slíkt húsnæði út ef fjármagnstekjuskatturinn hækkar svo mikið nema þeir geti velt öllum kostnaðinum yfir á leigjendur sína. Ef margir hætta að leigja út húsnæði vegna skattahækkunarinnar hefur það minna framboð af leiguhúsnæði í för með sér sem einnig knýr verðið upp. Svo hár skattur á fjármagnstekjur mun vafalaust líka leiða til þess að færri gefa leiguna upp til skatts.
Það bar til tíðinda hinn 1. maí að Grétar Þorsteinsson, forseti ASÍ, lýsti því yfir í ræðu að hann teldi að til þess að verkalýðshreyfingin yrði sterk í framtíðinni þyrfti aðild fólks að henni að byggjast á öðru en skylduaðild og forgangsréttarákvæðum. Fólk þyrfti að finna það hjá sjálfu sér að það hefði gagn af aðild. Þessi orð forsetans marka mikil tímamót. Fram til þess hafa leiðtogar verkalýðsfélaga ekki mátt heyra á það minnst að afnema skylduaðildina eða falla frá forgangsréttarákæði í kjarasamningum. Þeir hafa jafnvel neitað að viðurkenna að um nokkra skylduaðild sé að ræða, einungis greiðsluskyldu!
Það bar svo til tíðinda 2. maí að Björn Grétar Sveinsson, formaður Verkamannasambandsins, lýsti því yfir í sunnudagskaffi hjá Kristjáni Þorvaldssyni á Rás 2 að hann hefði efasemdir um réttmæti löggildingar á starfsréttindum. Ef rétt var skilið telur Björn löggildinguna úrelt fyrirkomulag. Þetta er einnig mikil tíðindi og til marks um breytt hugarfar í verkalýðshreyfingunni. Ef til vill sjá menn þar á bæ að með frjálsu markaðskerfi þar sem menn geta unnið hvar sem er í heiminum fyrir hvern sem er stenst það ekki til lengdar að þvinga fólk til aðildar að stéttarfélögum eða þrengja kost manna með löggildingu. Þvert á móti þarf verkalýðshreyfingin að gera sér far um að bjóða góða þjónustu sem gerir það eftirsóknarvert að ganga til liðs við hana.
Það er einkar ánægjulegt fyrir Vef-Þjóðviljann að geta tekið undir orð verkalýðsforingja á 1. maí og 2. maí.