Það verður ekki af vinstri mönnum í Fylkingunni tekið að þeir eru seinheppnir. Sennilegast felst versta seinheppni þeirra í þeim ósköpum að aðhyllast vinstri hugsjónir. Grænu vinstrimennirnir reyna varla nokkuð að fela það að þeir eru skugginn af helstu helstefnu mannkynsins. Þeir róta í ruslahaugum sögunnar og þegar þeir finna eintak af úrvalsritum Marx og Engels flíka þeir óhikað meintum lausnum þeirra í kosningapésum sínum. Ömurlegar hugsjónir, en hugsjónir samt. Fátt slíkt er að finna hjá Samfylkingunni.
Fylkingin er samnefnari fyrir ein stærstu kennitöluskipti sem átt hafa sér stað í stjórnmálum hérlendis. Fylkingarmenn hafa sér það eitt til ágætis að átta sig á því að stjórnarhættir þeir, sem stuðst var við austan Berlínarmúrsins eru ekki boðlegir lengur. Í stað slagorða á borð við kommúnisma, þjóðnýtingu, afnám borgarastéttarinnar, sæluríki verkamanna og einhliða afvopnun vestrænna þjóða koma önnur slagorð; sjálfbær þróun, réttlát tekjuskipting, lýðræðisleg stjórnun fyrirtækja, umhverfisvernd, fjölþreppa skattkerfi og vitaskuld réttlæti og jöfnuður, en Fylkingin gerir svo sterkt tilkall til þessara tveggja síðast nefndu atriða að hún á það eitt eftir að sækjast eftir að gera þau skrásettum vörumerkjum í sinni eigu.
En hver er hugsunin á bakvið þessi slagorð? Sjaldan heyrast tilraunir Fylkingarmanna til að útskýra hvað felst í sjálfsbærri þróun, en líti maður einungis á orðanna hljóman, þá er auðvelt að líta svo að sjálfbær þróun sé þróun sem þurfi hreint ekki aðstoðar ríkisvaldsins við!
-Samkvæmt kokkabókum Fylkingarinnar er réttlát tekjuskiping sú skipting tekna sem neitar dugmiklu fólki um ávexti erfiðis síns.
-Lýðræðisleg stjórnun fyrirtækja er fín hugmynd fyrir þá sem aldrei hafa tekið nokkra áhættu með eigið fé og er sem betur fer þess eðlis að hún er vart svaraverð.
-Umhverfisvernd hefur ávallt tekist best þar sem aðferðum frjáls markaðar hefur verið beitt – og jafnframt ávallt haft hörmulegustu afleiðingarnar þar sem hlutur ríkisvaldsins hefur verið mestur í þessum efnum
-Hún verður sennilega frekar mæld í öldum en áratugum, sú reynsla, sem sýnir að einfalt skattakerfi er ávallt til hagsbóta og jafnframt að flókin, þrepaskipt, gloppótt og reglugerðarþrungin skattkerfi standa málum fyrir þrifum.
-Réttlæti vilja allir stjórnmálaflokkar hafa sín megin. En enginn flokkur getur leyft sér að einoka sér þá réttlætiskennd sem býr meðal einstaklinganna. Tilraunir Fylkingarinnar í þessa veru lýsa ómældum hroka.
-Ef Fylkingin á við það að með jöfnuði séu þeir að tala um að allir séu jafnir fyrir lögum er það hið besta mál. En öllu líklegra er að hér sé verið að ræða um efnahagslegan jöfnuð, sem er hættuleg hugmynd sem hefur margítrekað misheppnast. Í of mörgum löndum utan vesturlanda ríkir mikill efnahagslegur jöfnuður – 95% fólks í þessum löndum er allt jafn hörmulega fátækt. Restin hins vegar sérhæfir sig í harðstjórn og auðsöfnun með aðstoð óhóflegrar skattheimtu – og hersins vitaskuld. Margt bendir til þess að Ísland þurfi meiri efnahagslegan ójöfnuð. Það er þessu landi ekki til heilla að hrekja frá sér hæfileikaríkt fólk með samblandi af öfund og illa ígrunduðum hátekjusköttum (eða vel ígrunduðum hátekjusköttum, ef út í þá sálma er farið). Lygin mikla, um að hinir fátækri gerist æ fátækari og hinir ríku enn þá ríkari, hefur aldrei átt við í löndum þar sem frjálst markaðskerfi hefur ríkt. Kaupmáttur beggja hópa hefur eflst. Það hefur heldur aldrei gagnast hinum fátækari að ríkisvaldið herji á hina efnameiri. Þessum staðreyndum geta vinstri menn á Íslandi ekki kyngt. Þess vegna má ef til vill setja fram örlitla kenningu um íslenska vinstri menn:
Þeir eru fastir á Neil Kinnock-stiginu.
Hvort sem talað er um Fylkinguna,Vinstri græna, eða forvera þessara flokka er ljóst að þeir hafa ekkert lært af Verkamannaflokknum í Bretlandi. Í dag er þessi flokkur nær óþekkjanlegur frá því sem var þegar Margaret Thatcher vann sinn fyrsta sigur í þingkosningunum 1979. Honum var ekki hleypt að stjórnartaumunum fyrr en hann hafði losað sig við Neil Kinnock og hans hreinræktaða sósíalisma. Þá, og ekki fyrr, var þeim treyst fyrir efnahag Bretlands. Vefþjóðviljinn er ekki mikill aðdáandi þessa Verkamannaflokks, hvorki nú né fyrrum. En störf hans ganga ekki lengur sérstaklega út á að rústa breskum efnahag líkt og hann gerði á frá lokum seinni heimstyrjaldarinnar og allt þar til Thatcher greip í taumana. Hann er ekki heldur að halda uppi hótunum um að gera það líkt og tilfellið var nær allan stjórnartíma Thatchers og Johns Majors.
En af þessu hafa íslenskir vinstrimenn ekkert lært. Hugmyndir þeirra um efnahagsstjórn lýðveldisins vekja ugg og sporin hræða. Engin vinstri stjórn hefur látið það vera að hækka skatta. Engin hefur verið nægilega traust til að endast heilt kjörtímabil í næstum 55 ára sögu lýðveldisins. Hvort sem litið er til forystumanna þessara flokka eða ungliðanna í röðum þeirra, þá er ljóst að langt er í það að óhætt sé að hleypa þeim í ríkisstjórn. Virðing vinstri manna fyrir sjálfsaflafé borgaranna og skilningur þeirra á einföldustu hagfræði eru með slíkum endemum að engri furðu sætir þegar Guðmundur Ólafsson, lektor við viðskipta- og
hagfræðideild HÍ, lét það alveg vera að tala undir rós þegar hann sagði að að búið væri sameina í einn stjórnmálaflokk allt vitlausasta fólk landsins í efnahagsmálum.