Laugardagur 1. maí 1999

121. tbl. 3. árg.

Því var spáð þegar fjármagnstekjuskattur var lagður á fyrir nokkrum árum að fljótlega kæmu fram hugmyndir um að hækka skattinn. Því var jafnframt spáð að fyrr en síðar krefðust skattahækkunarsinnar þess að skatturinn ætti að vera um 40% eins og tekjuskatturinn. Þetta er nú komið á daginn. Fylking allra vinstri manna (nema þeirra 20 þúsund sem ætla að kjósa Vinstri hreyfinguna grænt framboð) ætlar sér að skattleggja óeðlilegan sparnað. Margrét Frímannsdóttir talsmaður lét hafa það eftir sér í yfirheyrslu á Stöð 2 í gærkvöldi að „eðlilegur“ sparnaður yrði ekki skattlagður. Þegar fréttamenn gengu á hana hvað mætti teljast eðlilegur sparnaður kom í ljós að það var sparnaður sem gaf ekki meira en 120 þúsund króna tekjur af sér á ári. Allur sparnaður sem gefur meira af sér er ekki eðlilegur!

Ellilífeyrisþegi sem leigir út neðri hæð í húsi sínu fyrir 750 þúsund krónur á ári verður til dæmis tekinn í bakaríið fyrir slíkt óeðli. Sömu sögu er að segja af námsmanni erlendis sem leigir út íbúð sína hér á landi fyrir álíka upphæð. Það má að sjálfsögðu gera ráð fyrir að leiga á húsnæði hækki verulega í kjölfar skattheimtu af þessu tagi. Frumkvöðull sem leggur fé (sem hann hefur unnið sér inn og greitt af 38% tekjuskatt) í áhættusaman rekstur sem skilar góðum arði getur ekki selt vænlegum samstarfsaðila hlut í fyrirtækinu vegna þess að fylkingin tekur 40% af söluhagnaðinum.

En það er ekki nóg með að fylkingin ætli sér að skattleggja óeðli heldur einnig það sem er óvenjulegt. Með fjölþrepa tekuskatti ætlar fylkingin að lækka skatta á „venjulegar“ launatekjur og um leið að hækka skatta á óvenjulegar. Þegar gengið var á Margréti í sama þætti á Stöð 2 um þetta mál kom í ljós að venjulegar launatekjur eru undir 200 þúsund á mann á mánuði. Þeir sem gerast svo óvenjulegir að hala inn hærri tekjur munu fá að kenna á fjölþrepaskatti fylkingarinnar. Þetta á ekki síst við ungt fólk sem er að koma þaki yfir höfuðið og hefur oft miklar tekjur um skamman tíma. Það fólk fær að kenna á því að vera ekki venjulegt samkvæmt staðli fylkingarinnar.