Föstudagur 30. apríl 1999

120. tbl. 3. árg.

Stöð 2 hefur á undanförnum vikum sýnt heimildamynd Viðars Víkingssonar í þremur þáttum um sögu Sambands íslenskra samvinnufélaga. Hefur vel verið vandað til undirbúnings og gerðar myndarinnar, enda var hún í senn afar fróðleg og skemmtilegt sjónvarpsefni. Það sem einkum situr eftir hjá áhorfendum eftir að hafa séð þessa mynd er sú tilfinning, að í áratugi hafi samvinnuhreyfingin starfað án þess að þjóna hagsmunum umbjóðenda sinna og án þess að nokkur viðskiptalegur grundvöllur væri fyrir starfseminni, og að henni hafi tekist þetta vegna víðtækrar pólitískrar fyrirgreiðslu og verndar af hálfu Framsóknarflokksins.

Það var ekki fyrr en farið var að innleiða hér á landi vestræna viðskiptahætti, til dæmis á sviði vaxtamála, að þessi pólitíska fyrirgreiðsla dugði ekki lengur til og spilaborgin hrundi. Enn er því hins vegar ósvarað hve mikið þetta óeðlilega ástand kostaði neytendur og þjóðina í heild. Þeir stjórnmálamenn, sem báru mesta ábyrgð á þessu ástandi, hafa heldur ekki verið dregnir til ábyrgðar. Þeir koma vissulega úr flestum flokkum, en hlutur framsóknarmanna er þar þó lang mestur, enda voru tengsl þess flokks og Sambandsins með afar sérstæðum hætti. Sennilega munu þeir aldrei þurfa að standa reikningsskil gerða sinna. Þættir eins og þessir ættu hins vegar að stuðla að því að spillingin í kringum Sambandið gleymist ekki og verður þannig vonandi víti til varnaðar á næstu árum.

Á Stöð 2 á miðvikudagskvöld ræddu fréttamenn við Davíð Oddsson forsætisráðherra í tilefni af komandi kosningum. Athygli vakti, að ýmsar spurningar fréttamannanna fólu í sér tilraunir til að knýja fram loforð af hálfu forsætisráðherra um tilteknar fjárveitingar til tiltekninna málaflokka. Þeir vildu með öðrum orðum fá hann til að gefa kosningaloforð um hin aðskiljanlegustu mál. Forsætisráðherra var hins vegar var um sig og brá ekki út af þeirri venju sinni að gefa engin loforð af þessu tagi. Hann sagðist hins vegar lofa því að ef hann fengi til þess umboð, myndi hann halda áfram að vinna að umbótum sem stuðlað gætu að batnandi hag almennings og atvinnufyrirtækja í landinu, standa vörð um stöðugleikann og vinna að því að skapa þær aðstæður, sem bætt geta þjóðarhag.

Þetta fannst fréttamönnunum heldur rýrt loforð og vildu þess í stað fá að vita um áform sem varða vegaspotta hér og þar og milljónaframlög til hinna og þessara verkefna. Þetta sýnir afar ranga nálgun, því það er að sjálfsögðu hin breiða, almenna mynd sem skiptir kjósendur máli til lengri tíma litið en ekki einstök útgjöld. Fréttamönnunum er hins vega nokkur vorkunn, enda eru stjórnmálamenn yfirleitt iðnir við að lofa öllum öllu, mælikvarðinn á gæði framboðanna er að þeirra mati fólginn í sem mestu örlæti á almannafé, en hins vegar er miklu óljósara hvar á að fá það fé, sem verja á til góðverkanna. Í öllum loforðflaumnum ættu jafnt fréttamenn sem kjósendur að vera vakandi fyrir því að sá sem lofar mestum útgjöldum er jafnframt að lofa hæstu sköttunum. Sá sem ætlar að gera mest fyrir kjósendur á kostnað ríkisins er jafnframt að lofa því að seilast dýpra í vasa almennings eftir skattfé.