Fimmtudagur 29. apríl 1999

119. tbl. 3. árg.

Einföldustu atriði í efnahagsmálum virðast vefjast mjög fyrir frambjóðendum fylkingarinnar. Þannig virðast þeir ekki skilja það til hlítar að það sem kemur út úr ríkissjóði kallar fyrr eða síðar á að eitthvað fari inn í ríkissjóð. Á vefsíðu fylkingarinnar í gær er býsnast út af því að fylkingin hafi verið gagnrýnd fyrir málflutning sinn í skattamálum. Að því búnu leggur fylkingin fram nokkrar spurningar sem Vef-Þjóðviljanum er ljúft að svara.

„Við í Samfylkingunni hljótum að spyrja að því hvort það sé tillaga um skattahækkun á almenning að hækka ótekjutengdar barnabætur sem verði færðar inn í staðgreiðslu kerfið?“

– Svarið er já. Hækkun bóta er ekkert annað en aukin ríkisútgjöld og þau þarf að fjármagna með skattahækkunum.

„Er það tillaga um skattahækkun að taka upp fjölþrepa skattkerfi þar sem millitekjufólk og lágtekjufólk greiði lægri skatt en það gerir nú?“

– Svarið er já. Fjölþrepa skattkerfi eykur jarðaráhrif skattkerfisins og gerir lág- og millitekjufólki einmitt erfitt að bæta ráðstöfunartekjur sínar. Það vekur auðvitað sérstaka athylgi að fylkingin boðar fjölþrepa skattkerfi. Þannig verður tryggt að í hvert sinn sem menn bæta við sig yfirvinnustund verður þeim refsað með flutningi upp í hærra skattþrep. Fjölþrepa skattkerfi er líka flókið, bæði fyrri vinnuveitandann, launþegann og þann sem hefur eftirlit með innheimtu skattsins. Allar flækjur af þessu tagi kosta sitt.   Áframhaldandi almenn lækkun tekjuskattshlutfallsins, eins og til dæmis formaður Framsóknarflokksins hefur boðað, dregur hins vegar úr jaðaráhrifunum.

„Er það tillaga um skattahækkun á almenning að foreldrar haldi fullum launum í fæðingarorlofi sem verði 12 mánuðir og foreldrar geti skipt því með sér?“

– Já, þótt þetta sé hugmynd sem allir stjórnmálaflokkarnir hafa tekið upp á arma sína að einhverju leyti þá kostar það víst eitthvað að hafa fólk í orlofi á fullum launum í heilt ár. Ef fylkingin neitar því að þetta hafi kostnað fyrir ríkissjóð í för með sér þá eru laun opinberra starfsmanna lægri en nokkurn hafði órað fyrir!

„Er það tillaga um skattahækkun að framfærslugrunnur námslána verði hækkaður?“

Svarið er já. Námslán er niðurgreidd af ríkissjóði. Auknar niðurgreiðslur úr ríkissjóði kalla á auknar tekjur. Þessar auknu tekjur eru einmitt auknir skattar.