Miðvikudagur 28. apríl 1999

118. tbl. 3. árg.

Þessa dagana eiga verkalýðsforingjar innan ASÍ í harðvítugum deilum vegna félagsaðildar allstórs hóps launamanna. Rafiðnaðarsambandið hefur þennan hóp innan sinna vébanda sem stendur, en svo virðist sem Landssamband verslunarmanna og Verkamannasambandið séu að reyna að ná þessum mönnum inn í sín félög með tilvísan til skipulagsreglna ASÍ. Er þetta ekki í fyrsta sinn sem verkalýðsfélög heyja innbyrðis stríð af þessu tagi, enda skiptir niðurstaðan talsverðu máli, því að verkalýðsfélögin og foringjar þeirra verða því öflugri og valdameiri sem félagsmönnunum fjölgar.
    
Fjölmiðlar hafa fylgst vel með framvindu þessarar deilu en fréttamönnum hefur þó láðst að spyrja verkalýðsforingjana einnar grundvallarspurningar: „Hvers vegna fær fólkið ekki sjálft að velja sér verkalýðsfélag?“

Í tímaritinu Ökuþór sem Félag íslenskra bifreiðaeigenda gefur út er sagt frá könnun sem félag bifreiðaeigenda í Bretlandi gerði á því hvort menn minnkuðu akstur þegar bensínverð var hækkað með auknum sköttum. Í ljós kom að svo var ekki. Menn drógu ekki úr notkun bíla sinna þegar bensínverð hækkaði vegna skattahækkana. Þetta er athyglisvert þar sem bæði Vinstri hreyfingin og fylkingin sem klauf sig frá þeim boða auknar álögur á bifreiðaeigendur í nafni umhverfisins. Þessi niðurstaða Bretanna kemur þó ekki á óvart þar sem einkabíllinn er flestum afar mikilvægur. Það á ekki síður við þar sem veður er rysjótt og byggð dreifð eins og hér á landi. Þessir skattar munu svo lenda harðast á efnaminnsta fólkinu sem ver stærstum hluta tekna sinna til reksturs á bíl.

Eins og kom fram í Vef-Þjóðviljanum í gær færði Ágúst Einarsson núverandi þingmaður fylkingarinnar afar sterk rök fyrir kvótakerfinu áður en hann fór að pota sér áfram í pólítík. Þá fullyrti hann m.a. að frjálst framsal aflaheimilda væri hvorki meira né minna en „undirstaðan undir hagkvæmni í sjávarútvegi“. Í dag segir Ágúst svo um stefnu fylkingarinnar: „Við (ríkið) leigjum heimildir að teknu tilliti til báta og byggða og bönnum framsal á þeim hluta veiðiheimilda.“
Og maðurinn sem varaði sérstaklega við að blanda byggðastefnu í fiskveiðistjórnunina segir nú orðrétt að fylkingin hans ætli:  „Einnig að treysta byggð í landinu með því að stuðla að eðlilegri dreifingu aflaheimilda með úthlutun byggðakvóta eða öðrum sambærilegum hætti.“