Helgarsprokið 25. apríl 1999

115. tbl. 3. árg.

Tímasprengjan Össur Skarphéðinsson ritar grein í Morgunblaðið í vikunni og gerist þar svo djarfur að gefa í skyn að núverandi staða efnahagsmála þjóðarinnar sé fyrrum fjármálaráðherra dr. Ólafi Ragnari Grímssyni að þakka. Augljóst er að Össur gerir ráð fyrir að fólk muni ekki átta til tíu ár aftur í tímann, en þá sat við völd vinstri stjórn þessa fyrrum fjármálaráðherra. Á þeim tíma var sá maður ekki þekktur fyrir það helst að brosa blítt framan í landsmenn eins og nú um stundir heldur var hann aðallega kunnur fyrir að hækka skatta án afláts. Í þessu hlutverki sínu krækti hann í „gælunafnið” Skattmann og það ekki að ósekju. Þeir sem farnir eru að ryðga í afrekum þessarar vinstri stjórnar, sem Össur sér nú í hillingum, geta flett af handahófi upp í gömlum dagblöðum. Næsta víst er að hvar sem niður ber munu þeir lesa um hugmyndir ríkisstjórnarinnar um skattahækkanir enda voru þær til nær daglegrar umfjöllunar og framkvæmdar á þessum árum.

Ólíkt uppáhaldsstjórn Össurar hefur sú ríkisstjórn sem nú situr og Össur fjandskapast við lækkað skatta. Á næsta kjörtímabili þarf áfram að lækka skatta svo ástandið hér færist smám saman í viðunandi horf. En Össur gagnrýnir skattalækkanir og hefur uppi hótanir um hækkun skatta komist hann til valda. Fylgi hann í fótspor fyrirmyndar sinnar Ólafs Ragnars í efnahagsmálum mun hann hækka skatta svo um munar, en hver fjögurra manna fjölskylda fékk í tíð ríkisstjórnar Ólafs Ragnars að greiða 250.000 krónum meira í skatta en áður hafði verið. Meðal annars vegna þess að tekjuskattshlutfall einstaklinga hækkaði úr 35,20 í 39,79% eða um 13%. Þrátt fyrir þetta var fjarri því að ríkisstjórninni tækist að stoppa í fjárlagagatið, því halli ríkissjóðs í tíð hennar var tugir milljarða króna.

Þessi uppáhaldsríkisstjórn Össurar stóð líka fyrir látlausum neyðaraðgerðum sem kölluðust þá „efnahagsráðstafanir“ en slíkt fum er sem betur fer óþekkt orðið. Össur virðist líka halda að þessar tíðu „efnahagsráðstafanir“ hafi lagt grunninn að þeim stöðugleika sem nú ríkir, en það er vitaskuld misskilningur eins og fleira er varðar hagspeki Össurar og félaga hans. Linnulaus inngrip hins opinbera í atvinnu- og efnahagslíf eru ekki til þess fallin að bæta stöðugleika efnahagslífsins. Það var ekki fyrr en þessum handaflsaðgerðum og skattahækkunum linnti sem stöðugleiki komst á og þjóðin vann sig út úr samdráttarskeiðinu.

Össur leggur í þessum anda til að afskipti hins opinbera af atvinnulífinu verði aukin frá því sem nú er og þykir þó flestum sem stunda fyrirtækjarekstur nóg um enda hefur verið reynt að draga úr þessum afskiptum síðustu árin. Framtíðarsýn Össurar og Fylkingarinnar er að fólk þar á bæ fái að vera með puttana í atvinnulífinu í gegnum skattaívilnanir og beina styrki. Draga á úr vægi almennra aðgerða sem felast í að lækka skatta og minnka reglufargan, en þess í stað eiga að koma sértæku aðgerðirnir sem í tíð síðustu vinstri stjórnar urðu að alræmdri peningahít þar sem milljörðum króna af fé skattgreiðenda var sóað í gæluverkefni á borð við fiskeldi og loðdýrarækt. (Össur ætti að vera þaulkunnugur fiskeldismálum sem fyrrverandi stjórnarmaður í Framkvæmdasjóði sem lánaði stórfé til margra fiskeldisfyrirtækja sem fóru flest á hausinn. Hann var einnig aðili að nokkrum fiskeldisfyrirtækjum og doktor í kynlífi þessara dýra svo ekki getur hann borið við fáfræði um þessi mál og er fullkunnugt um þá gjörbreytingu sem varð þegar ríkisstjórn Ólafs Ragnars fór frá árið 1991 og ný ríkisstjórn lokaði fyrir frekari lánveitingar ríkisins til fiskeldis.)

Því miður heldur Fylkingin hans Össurar að engin tengsl séu á milli rangrar efnahagsstefnu vinstri manna og slæmrar stöðu efnahagsmála þegar vinstri stjórnir hrökklast frá völdum. Allt sé háð veðri og vindum í efnahagsmálum og því sé jafnan óhætt að hækka skatta, auka útgjöld og hafa sem mest afskipti af atvinnulífinu. Það er einmitt þess vegna sem Össur og félagar hafa hótað skattahækkunum og auknum ríkisafskiptum eftir kosningar nú. Þeir trúa því enn að skattarnir komi af himnum ofan og að hækkun þeirra hafi engin neikvæð áhrif á efnahagslífið. Það hlýtur að vera gaman að lifa í svona ævintýraheimi, en betra væri ef menn sæju sér fært að gera það á eigin kostnað.