Laugardagur 24. apríl 1999

114. tbl. 3. árg.

Ríkissjónvarpið ætlar nú að taka til sýninga á þriðjudagskvöldum, æsispennandi framhaldsþætti, hverra hetjur eru sænskir skattalögreglumenn. „Það ratar nefnilega ekki allt fé í ríkiskassan“ eins og segir í kynningu þáttarins. En hvers vegna stendur ríkissjónvarpið ekki sjálft fyrir metnaðarfullri þáttagerð af þessu tagi, vel mætti ímynda sér spennandi sakamálaflokk um innheimtumenn ríkisútvarpsins. Það ratar nefnilega ekki allt fé til innheimtudeildarinnar. Með hliðsjón af þáttum á borð við Derrick og Magnum PI þá er borðliggjandi að þessir þættir heiti Gé Pétur.

Það virðist ótrúlegt, í kosningabaráttu árið 1999, að ekki skuli minnst á hlutverk ríkisfjölmiðlanna Það er engu líkara en að um áframhaldandi tilvist þeirra ríki þverpólitískt þegjandi samkomulag. Um áframhaldandi opinberan fréttaflutning. Um áframhaldandi pólitískan áróður stofnunar, sem gengur þvert á sannfæringu og betri vitund margra þeirra sem gert er að standa undir rekstrinum. En kannski er ekki hægt að tala um að selja ríkisfjölmiðlana í kosningabaráttu. Kosningabarátta er nefnilega háð að stórum hluta í þessum ríkisfjölmiðlum og því ekki vænlegt að reita starfsmenn þeirra til reiði með þessháttar hugmyndum. Svona hafa nú ríkisfjölmiðlarnir ómissandi hlutverki að gegna við vernd og viðgang lýðræðisins.

Guðni Ágústsson hefur lýst því að sér líði eins og kjarnorkusprengju. VefÞjóðviljinn hefur á þessu fullan skilning enda vitnar saga kalda stríðsins um ótvíræðan fælingarmátt þeirra.