Föstudagur 23. apríl 1999

113. tbl. 3. árg.

Það er kunnara en frá þurfi að segja að ýmsir þingmenn fylkingarinnar hafa síður en svo ánægju ef því hve miklar vinsældir Jóhönnu Sigurðardóttur eru í samanburði við þá sjálfa. Jóhanna malaði Össur Skarphéðinsson í prófkjöri fyrir nokkrum vikum og mátti Össur heita heppinn að ná sæmilega líklegu þingsæti. Á heimasíðu fylkingarinnar er sagt frá fundi sem Össur Skarphéðinsson og Margrét Frímannsdóttir sóttu austur í Flóa í fyrradag. Segir svo frá: „Í ræðu sinni fór Össur yfir tilurð Samfylkingarinnar og þær væntingar sem samfylkingarsinnar bera til hinnar nýju hreyfingar. Össur sagði m.a. að í kosningunum þann 8. maí væri í fyrsta skipti möguleiki á því að kona, og það vinstri sinnuð kona, Margrét Frímannsdóttir, gæti orðið forsætisráðherra Íslands.“

Það er gaman að heyra að „væntingar sem samfylkingarsinnar bera“ eru allt aðrar en þeir létu í ljósi í prófkjörinu þegar Jóhanna rótburstaði Össur. Hvar er „vilji fólksins“ núna Jóhanna? Þetta er einnig athyglisverð söguskoðun. Fyrri réttum fjórum árum hafði Þjóðvaki flokkur Jóhönnu Sigurðardóttur margfalt fylgi á við þáverandi flokk Össurar Skarphéðinssonar Alþýðuflokkinn og einnig fyrrverandi flokk hans Alþýðubandalagið. Þá var allt eins líklegt að Jóhanna kæmist í þá aðstöðu að mynda ríkisstjórn. Það á semsé ekki aðeins að reyna að fela núverandi vinsældir Jóhönnu og gera lítið úr hennar hlut á allan hátt heldur er reynt að falsa söguna með afar sérstæðum hætti í sama tilgangi.

Í kosningabaráttunni er talsvert rætt um „skuldasöfnun heimilanna“. Hún virðist jafnvel koma stjórnmálamönnum á óvart. Jafnvel fyrrverandi félagsmálaráðherrum eins og Rannveigu Guðmundsdóttur og Jóhönnu Sigurðardóttur sem eiga þátt í því að hvetja fólk til skuldasöfnunar þegar það kaupir húsnæði. Vaxtabótakerfið hvetur nefnilega til skuldasöfnunar. Fólk sem á 2 milljónir króna og kaupir 7 milljón króna íbúð á auðvitað að taka 7 milljónir að láni og láta milljónirnar tvær á beit þar sem þær vaxa og dafna. Dæmi lítur nefnilega þannig út að fólk með meðaltekjur sem skuldar 7 milljónir greiðir ekki meiri vexti og verðbætur heldur en fólk sem skuldar 5 milljónir króna þegar tekið hefur verið tillit til vaxtabóta.