Fimmtudagur 22. apríl 1999

112. tbl. 3. árg.

Stjórnvöldum er fátt óviðkomandi og á þeim bæ virðist sífellt ríkari tilhneiging til að setja reglugerðir um alla hugsanlega hluti. Ein af nýjustu reglugerðunum, sem er nr. 260/1999, heitir því skemmtilega nafni: „Reglugerð um veiðar, meðferð, vinnslu og dreifingu lifandi samloka.“ Þar er á rúmlega 13 blaðsíðum lýst í smáatriðum hvernig standa skuli að veiðum og meðferð á samlokum, að vísu ekki þessum venjulegu rækju eða roastbeef samlokum, heldur lindýrum með þessu nafni, sem lifa í hafinu umhverfis landið.

Reglugerðin sem vísað var til er nr. 260/1999. Það þýðir að þegar hún var gefin út 15. apríl höfðu áður verið gefnar út á þessu ári 259 reglugerðir og önnur sams konar stjórnvaldsfyrirmæli. 15. apríl var 105. dagur ársins og höfðu því verið að meðaltali gefnar út tæplega tvær og hálf ný reglugerð á dag frá áramótum. Þetta sýnir að afköst starfsmanna stjórnarráðsins hafa aukist frá síðasta ári, því á sama tímabili 1998, þ.e. frá 1. janúar til 15. apríl, voru „aðeins“ gefnar út 222 reglugerðir, sem er rétt rúmlega 2,1 á dag. Það er svo spurning hvort borgararnir, einstaklingar og fyrirtæki, geta komist yfir að kynna sér efni allra þessara stjórnvaldsfyrirmæla, en þeim ber að sjálfsögðu að fylgja ákvæðum þeirra.

Ekki er víst að allir treysti því sem flokkarnir lofa í auglýsingunum þessa dagana. En þó er ein og ein auglýsing inn á milli sem enginn efast um að sé rétt. Í gær auglýsti fylkingin til dæmis í útvarpi að menn ættu að koma á kosningaskrifstofu framboðsins og sjá furðuleikhúsið.

Í umræðuþætti á Skjá 1 í gærkvöldi benti Sólveig Pétursdóttir þingmaður Rannveigu Guðmundsdóttur þingmanni á að það væri ekki endilega til marks um fyrirmyndar þjóðfélag að félagslega kerfið þendist út og útgjöld til þess málaflokks væru mikil. Það virðist því miður almennt viðhorf frambjóðenda fylkingarinnar að það sé betra að fólk sé á framfæri hins opinbera en sjái sér sjálft farborða. Til dæmis verður ekki annað séð en að fylkingin telji það betra þjóðfélag sem ver háum upphæðum í atvinnuleysisbætur en þjóðfélag þar sem allir hafa vinnu og engum þarf að greiða bætur.

Vef-Þjóðviljinn óskar lesendum sínum gleðilegs sumars og þakkar samfylgdina í vetur.