Miðvikudagur 21. apríl 1999

111. tbl. 3. árg.

Steingrímur Sigfússon sendi ríkisskattstjóra bréf um daginn og spurði hvort það væri mögulegt að skattleggja hagnað af sölu veiðiheimilda sérstaklega. Ríkisskattstjóri svaraði því til í bréfi til Steingríms að þetta sé hægt en sé flókið úrlausnarefni. Þetta var Steingrímur afar ánægður með og kom í sjónvarpið og sagði að þetta væri hægt. Já, ef það er hægt að innheimta skatt, af hverju ekki að gera það?  Þá á aðeins eftir að svara þeirri spurningu hvort það verður seljandi eða kaupandi veiðiheimildanna sem greiðir skattinn. Ef verð veiðiheimilda hækkar við skattlagninguna er ljóst að það er ekki seljandinn sem ber skattinn einn heldur einnig nýi maðurinn sem er að reyna fyrir sér í útgerð.

Ríkissjónvarpið sýndi á þriðjudagskvöld umræðuþátt fulltrúa stjórnmálaflokkanna um „málefni eldri borgara“. Fyrir viku var umræðuefni sams konar þáttar „málefni ungs fólks“. Hugsanlega verður haldið áfram á sömu braut; að taka fyrir hvern skilgreinda hópinn á fætur öðrum og kalla eftir afstöðu flokkanna til sérstakra, meintra hagsmunamála þeirra. Gefst þá stjórnarandstöðuflokkunum, Fylkingunni og Vinstri grænum, Húmanistum og Frjálslyndum, kostur á að keppa í yfirboðum til viðkomandi hópa. Sá vinnur svo keppnina, sem lofar flestum milljarðatugum til viðkomandi málaflokks. Hann er mesta „góðmennið“.
         
Ef Ríkissjónvarpið heldur áfram útsendingu þátta af þessu tagi er nauðsynlegt að einn minnihlutahópur í þjóðfélaginu verði tekinn út úr og sérstaklega fjallað um hans málefni. Þar er um að ræða skattgreiðendur, en til þeirra senda stjórnmálamennirnir auðvitað reikninginn vegna loforðanna í öllum hinum málaflokkunum. Nauðsynlegt er að fá skýr svör stjórnmálamannanna um hvernig eigi að fjármagna öll góðverkin og gegn hvaða hópum skattgreiðenda á að ráðast til að ná í þá peninga. Línurnar þar virðast nokkuð skýrar:
    
Fylkingin hótar allsherjar skattahækkunum en hefur sérstakan augastað á fé þeirra sem lagt hafa fyrir og eiga sparnað á einhverju formi. Eins vill Fylkingin skattleggja fyrirtækin stórlega sem sennilega myndi leiða til fjöldauppsagna og jafnvel gjaldþrota, með þeim afleiðingum að atvinnuleysi gæti aukist stórlega. Loks telur Fylkingin það vænlega byggðastefnu, að leggja sérstakan skatt á útgerðarfyrirtækin, sem eru máttarstólpar atvinnulífsins í hinum dreifðu byggðum hringinn í kringum landið.
    
Vinstra gær framboð hótar allsherjar skattahækkunum á allt og alla þannig að hægt verði að flýta þjóðnýtingunni, sem framboðið stefnir að leynt og ljóst. Framsóknarflokkurinn hótar ekki skattahækkunum, en gefur samt loforð sem kallað geta á slíkar aðgerðir. Sjálfstæðisflokkurinn hótar ekki skattahækkunum, en lofar ekki heldur skattalækkunum, þótt full ástæða væri til miðað við þá skattaáþján sem viðgengist hefur hér á landi um langt árabil.