Mánudagur 26. apríl 1999

116. tbl. 3. árg.

Margrét Frímannsdóttir útnefndi sjálfa sig í gær forsætisráðherraefni Fylkingarinnar. Þetta gerðist í viðtali á Bylgjunni í hádeginu, en þá var hún spurð hvort búið væri að ganga frá því hver yrði forsætisráðherra ef Fylkingin myndaði stjórn. Fyrst svaraði Margrét því til að framboðið hefði ekki rætt um hugsanleg ráðherraefni, en fréttamennirnir gerðu sér þetta ekki að góðu og spurðu áfram. Og viti menn, þó framboðið væri ekki búið að ræða hvernig þessum málum skyldi skipað ákvað Margrét að hún væri „helsta ráðherraefni“ Fylkingarinnar, eins og Davíð Oddsson, Halldór Ásgrímsson og Steingrímur J. Sigfússon væru helstu ráðherraefni sinna flokka, og því væri hún forsætisráðherraefni Fylkingarinnar.

Það er afar sérstakt í „lýðræðislegu“ framboði að menn útnefni sjálfa sig til embætta, en þegar þetta er skoðað í ljósi hinnar stuttu sögu Fylkingarinnar þarf þetta ekki að koma á óvart. Fyrir nokkrum vikum skipaði Sighvatur Björgvinsson þessa sömu Margréti talsmann Fylkingarinnar án þess að tala við nokkurn mann, en þá fylgdi að vísu að þessi ráðstöfun væri fram að kosningum. Aðrir en Margrét gerðu sér tæplega grein fyrir því að hún yrði skömmu síðar orðin sjálfskipaður leiðtogi eftir kosningar líka. Það er að minnsta kosti ólíklegt að Jóhanna Sigurðardóttir, sem er eini frambjóðandi Fylkingarinnar sem hefur eitthvað fylgi á bak við sig eftir prófkjör, hafi gert ráð fyrir því að svo freklega yrði fram hjá henni gengið. Reyndar á eftir að koma í ljós hvort hún sættir sig við þessa sérkennilegu ákvörðun Margrétar, en ef að líkum lætur kyngir hún henni eins og öðru sem henni hefur verið boðið upp á þar á bæ.

Fylking allra vinstri mann nema þeirra 17 þúsund sem ætla að kjósa vinstri græna boðar að gera veiðiheimildir upptækar og leggja á veiðileyfagjald. Einnig er boðuð sérstök skattlagning á kvótasölu. Nýlega sömdu Íslendingar við Rússa og Norðmenn um skiptingu aflaheimilda í Smugunni. Íslendingar voru í aðstöðu til að semja vegna þess að íslensk skip hafa á undanförnum árum stundað þar veiðar. Svanur Guðmundsson yfirmaður sjávarútvegsgreiningar hjá Landsbréfum hf. vekur athylgi á stöðu þeirra sem aflað hafa sér kvóta í Smugunni í grein í Morgunblaðinu á laugardaginn.

Í grein sinni segir Svanur: „Á því er engin launung að Smugukvótinn er kominn til vegna veiða útgerða sem tóku áhættu og sendu skip sín norður í höf til að leita eftir auknum afla annars staðar en hér við land. Nú gera íslensk stjórnvöld samning við hlutaðeigandi þjóðir um veiðar á alþjóðlegu hafsvæði og takmarka um leið frelsi þeirra útgerað sem þarna hafa stundað veiðar. Líklega munu þau skip sem þarna stunduðu veiðar fá kvóta í samræmi við veiðireynslu sína sem vonandi verður framseljanlegur milli skipa eins og annar kvóti hér við land. Þá kemur upp „vandamál“ hjá sumum frambjóðendum í kosningum til Alþingis í vor. Þar sem hægt verður að framselja kvóta milli útgerða myndast verðmæti sem þörf er á að skattleggja að þeirra mati.“

Það er alveg ljóst eins og Svanur bendir jafnframt á í grein sinni að við takmörkun á veiði í Smugunni munu útgerðir leita leiða til að hagræða veiðunum með sameiningu veiðiheimilda. Hvers vegna ætti að skattleggja þessa hagræðingu? „Halda þessir aðilar að sérsköttun eins og um er rætt verði til þess að hvetja menn til áhættufjárfestinga í veiðum á nýjum svæðum eða vannýttum tegundum sem eru enn utan kvóta ( einsog gullax og litlakafa)?“, spyr Svanur.