Eins og Vef-Þjóðviljinn sagði frá á dögunum hefur stefnu Alþýðubandalagsins í utanríkismálum verið eytt af heimasíðu flokksins enda er það í anda hins nýja Þjóðvaka sem hluti Alþýðubandalagsins er nú þátttakandi í að þegja um utanríkismál fram að kosningum og gildir þar einu þótt varnarbandalagið sem Ísland er aðili að taki nú þátt í hernaðaraðgerðum í Evrópu og allt sé upp í loft hjá Evrópusambandinu eftir að framkvæmdastjórn þess sagði af sér á einu bretti vegna spillingarmála. Ekkert káfar á hinum nýja Þjóðvaka.
En það eru ekki allir vinstri menn hræddir við að segja hug sinn. Á heimasíðu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs koma menn ekki að tómum kofanum. Hvorki í utanríkismálum né öðrum málum. Það kemur svo sem ekki á óvart enda hafa forsvarsmenn hreyfingarinnar verið þekktir fyrir flest annað en hentistefnu. Stefnan er sú sama og hjá Alþýðubandalaginu (og forverum þess) fyrr á árum og hentar fáum.
Í stefnu VG í efnahags- og skattamálum er ekki að finna færri en sjö hugmyndir um nýja skatta og að sjálfsögðu rætt um að herða á innheimtu þeirra skatta sem fyrir eru. Jafnframt boðar VG eins og hinn nýi Þjóðvaki þrepaskiptan tekjuskatt en segir um leið að setja verði skorður við jaðaráhrifum skattkerfisins! Ef að vinstri flokkarnir ætla ekki að lækka skattinn eftir því sem tekjur manna hækka er ljóst að fjölgun skattþrepa eykur jaðaráhrif skattkerfisins. Í dag greiðir launþegi með 300 þúsund króna mánaðartekjur 29% launa sinni í tekjuskatt en launþegi með150 þúsund króna mánaðartekjur 21%. Ef þeir lenda í sitthvoru skattþrepinu eykst þessi munur.
Um stefnuna almennt má segja að þar eru gamlir frasar um aukna misskiptingu, samþjöppun fjármálalegs valds og andstöðuna við gróða nokkuð áberandi. Sem fyrr er alþjóðlegt samsæri í gangi til að kúga þjóðir þróunalandanna og liður í því er að rífa og tæta móður náttúru. Allir nema liðsmenn VG eru andstæðingar umhverfisverndar. Mannkynið þarf á komandi öld að þreyta örlagaglímu við aðsteðjandi vistkreppu. Barátta almennings og þjóða um andrými, auðlindir og rétt til mannsæmandi lífs getur orðið afar hörð. segir í stefnu VG. Allt er þetta böl svo auðvitað runnið undan rifjum gróðapunga í alþjóðlegum stórfyrirtækjum sem þar að auki hafa það á samviskunni að hvetja til ófriðar og stríðsreksturs vítt og breitt um heiminn.