Fátt kom á óvart í umræðum forystu- og talsmanna stjórnmálaflokkanna í Ríkissjónvarpinu í gærkvöldi. Alþýðuflokkurinn átti að vísu engan fulltrúa en þar sátu hins vegar bæði núverandi formaður Alþýðubandalagsins og fyrrverandi varaformaður sama flokks og tókust hressilega á – við hvort annað – svona til að undirstrika hvernig sameining vinstri manna hefur gengið.
Það hlýtur svo að vera stuðningsmönnum hins nýja Þjóðvaka nokkuð áhyggjuefni að talsmaður hans á í vök að verjast vegna hinnar furðulegu stefnu sem framboðið kynnir. Það virðist enn á reiki hvað er stefna, hvað verkefnaskrá, hvað kosningaloforð og hvað málefnaplagg.
Flokkakerfið er úrelt, er vinsæl tugga. Líklega er Kvennalistinn veigamesta tilraunin sem gerð hefur verið til að riðla hinu svonefnda fjórflokkakerfi en öllum nýjum framboðum hefur verið stefnt gegn fjórflokknum án árangurs. Með fjórflokki er átt við Framsóknarflokk, Sjálfstæðisflokk og tvo vinstri flokka. Þetta munstur hefur verið afar lífseigt í íslenskum stjórnmálum. En nú er kominn tími til að breyta, segir Margrét Frímannsdóttir, fólkið krefst breytinga, segir Jóhanna Sigurðardóttir og Sighvatur Björgvinsson tekur undir. Samkvæmt skoðanakönnunum um þessar mundir fá fjórir flokkar menn á þing í vor, Framsóknarflokkur, Sjálfstæðisflokkur og tveir vinstri flokkar.
Hvers á frjálslyndið að gjalda? Fyrir nokkrum árum bauð flokkur á vegum þáverandi fráfarandi umhverfisráðherra fram undir merkjum frjálslyndis og nú þessi ósköp. En ef til vill nær frelsishugtak þessara manna aðeins til þess að fara frjálslega með annarra manna fé.