Á heimasíðu Advocates for Self-Government má taka lítið krossapróf sem staðsetur mann á pólítísku grafi. Á grafinu eru tveir ásar, annar með stigum sem fást fyrir afstöðu til frelsis í einkamálum og hinn með stigum fyrir afstöðu til frelsis í efnahagsmálum. Prófið er miðað við bandarísk stjórnmál en flestar spurningarnar eiga þó einnig við pólítíska umræðu hér á landi. Þótt prófið sé einfalt og segi auðvitað ekki allt þá stillir það helstu hugmyndafræðilegu andstæðunum upp á skemmtilegan hátt.
Það er eins og Vef-Þjóðviljann minni að fyrir síðustu borgarstjórnarkosningar hafi Helgi Hjörvar kvartað nokkuð undan rógburði vegna þess að upplýsingar um fjármálaóreiðu og brot á skattalögum í fyrirtækjum Helga og Hrannars Arnarssonar voru settar á Netið. Þó kom ekki annað fram á þessum síðum en finna má í opinberum gögnum. Svipuðum upplýsingum um þá félaga hafði einnig verið dreift í prófkjöri R-listans nokkru fyrr.
Í dagblaðinu Degi um helgina er rætt við Helga Hjörvar verðandi forseta borgarstjórnar um nektardansstaði í borginni. Helgi segir ýmsar hættur geta tengst svona starfsemi. Eins og vændi, eiturlyf og glæpastarfsemi yfirhöfuð. Ég held að það skipti engu máli hversu lögreglan gefur út margar skýrslur um að allt sé í lagi með þessa staði; það veit það hvert mannsbarn að sumum svona stöðum fylgir alls kyns óþrifnaður og dugar syndakvittun lögreglunnar þá skammt. Þetta er semsé haft eftir manninum sem hefur að eigin sögn reynslu af því að vera borinn röngum sökum. Það er þá óhætt að segja að Helgi hefur lært af þessari reynslu!