Helgarsprokið 4. apríl 1999

94. tbl. 3. árg.

Í vefritinu Intellectualcapital.com getur að líta grein eftir samfélagshyggjumanninn (communitarianist) Amitai Etzioni, hvar hann tíundar þann ávinning sem samfélagið hefur af minnkandi friðhelgi einkalífsins. Etzioni verður tíðrætt um nýjar líftæknilegar leiðir til persónugreiningar á borð við augnbotnsathuganir (retina scan) og DNA greiningar sem hann telur mikilsverð tæki til að auka öryggi í viðskiptum, draga úr straumi ólöglegra innflytjenda, minnka svik í almannatryggingum og til þess að koma í veg fyrir að fólk geti almennt villt á sér heimildir. Etzioni gengur nefnilega út frá því að hafi maður ekkert að fela þá hafi maður jafnframt ekkert að óttast og einkalíf því óþarft. Gegn viðhorfum Etzioni má benda á að frjáls viðskipti byggja hinsvegar ekki á öryggi hvað sem það kostar heldur á takmörkun áhættu fyrir viðráðanlegt verð. Skynsamleg takmörkun áhættu er hluti af viðskiptakostnaði í hverjum einstökum viðskiptum á markaði sem altækar reglur geta ekki leyst af hólmi. Krafan um fullkomið öryggi myndi hinsvegar leysa öll viðskipti af hólmi.

Aukin persónugreining og minnkandi persónuvernd nýtist fyrst og fremst ríkisvaldinu á hverjum stað og hverjum tíma og oftar en ekki til vondra verka. Etzioni, eins og aðrir samfélagshyggjumenn, telur að lausnin sé fólgin í því að gera betur, finna betri stjórnarherra og frúr, hafa betra eftirlit með upplýsingunum sem safnað er og nota þær bara til „góðra“ verka. Frelsinu stafar einmitt mest ógn af samfélagshyggjumönnum með fögur fyrirheit sem vilja fórna því fyrir aukið „öryggi“, til að vernda okkur gegn ólöglegum innflytjendum, lyfjum, hugmyndum, kvikmyndum, myndum, bókum og nú síðast fáklæddum konum og köttum. Hugmyndir Etzioni og annarra samfélagshyggjumanna hvíla ekki einvörðungu á nytjahyggjurökum. Því ekki einasta telja þeir samfélaginu heimilt að svipta einstaklingana einkalífi þeirri í þágu þess heldur telja þeir einnig að einstaklingunum beri siðferðileg skylda til þess að láta samfélaginu í té upplýsingar um sín helgustu mál. Þeir fullyrða að einstaklingarnir eigi samfélaginu þá skuld að gjalda. Röksemdir þeirra eru einatt á þá leið að einstaklingarnir eigi samfélaginu líf sitt að gjalda og því sé ekkert lát á afborgunum, jafnvel ekki að þeim gengnum.

Hvílir til dæmis siðferðileg skylda á hverjum og einum einstaklingi að vera innan gagnagrunns á heilbrigðissviði, sökum þess að sú heilbrigðisþjónusta sem menn njóta núna sé tilkomin vegna rannsókna, hliðstæðra þeim sem gagnagrunnurinn gerir kleift að framkvæma? Í engu skal hér dregið úr vægi slíkra rannsókna, en menn gera hinsvegar þá reginvillu að telja þær af engu sprottnar og að sú þekking með þeim fæst verði með óskiljanlegum hætti að lyfjum og lækningatækjum í höndum þeirra sjúklinga og lækna sem þeirra þarfnast.

Það er hinni ósýnilegu hönd markaðarins fyrst og fremst að þakka að hægt er að setja saman hlustunarpípu sem kostar innan við fimmþúsund krónur og það er einmitt þessari ósýnilegu hönd fyrst og fremst að þakka að á annan enda hennar er hægt að setja lækni sem kann að lesa úr hinum aðskiljanlegustu hljóðum sem gegnum pípuna berast, þrátt fyrir þjóðnýtingu heilbrigðis- og menntakerfis. Það er jafnvel vel hugsanlegt að til dæmis faraldursfræðilegar rannsóknir hefðu ekki skilað þeim árangri sem raun ber vitni ef ekki hefðu komið til rannsóknir að viðfangsefnunum forspurðum. En að fullyrða að árangur þeirra væri til muna lakari, hefði til staðar verið frjáls markaður með samþykki og synjun viðfangsefnanna á sér enga stoð.