Laugardagur 20. mars 1999

79. tbl. 3. árg.

Því er stundum haldið fram að rétta leiðin til að berjast gegn þeim slæma ávana, sem flestir telja reykingar vera, sé að hafa þær sem allra dýrastar. Einn þeirra sem berst gegn vindla- og sígarettureykingum með því að gera þær dýrari er Bill Clinton forseti Bandaríkjanna og þarf engan að undra þótt hann kjósi að hafa með þessum hætti aukin afskipti af lífi almennings. Á heimasíðu Cato stofnunarinnar hefur nokkuð verið fjallað um þetta mál, t.d. í dag og þann 15. þessa mánaðar. og bent á að hærra verð muni ekki skila tilætluðum árangri í baráttunni við reykingar.

Í fyrsta lagi er nefnt að hærra verð mun auka umsvif svarta markaðarins, sem skapar svipaðar aðstæður og menn þekkja úr baráttunni við ólögleg fíkniefni. Í öðru lagi er bent á að skattar sem þessir muni líklega ekki duga til að koma í veg fyrir reykingar ungmenna. Stuðst er við rannsóknir Cornell háskólans, sem gefa til kynna að verð – innan raunhæfra marka auðvitað – skipti ungmenni nánast engu þegar kaup á tóbaki eru annars vegar. Og opinberar tölur hafa sýnt að reykingar ungmenna hafa aukist í sjö af átta fylkjum sem hækkuðu nýlega sígarettuskatta.

Loks er þess getið í fyrrnefndri umfjöllun að skattar sem þessir koma hlutfallslega verst niður á þeim sem hafa lægstar tekjur, enda þurfa þeir að greiða tiltölulega hærri hluta tekna sinna til ríkisins sé hár skattur lagður á tóbak.

Sömu rök eiga reyndar við þegar ýmsir aðrir sértækir skattar eru annars vegar, eins og t.d. þeir sem kallaðir hafa verið umhverfisskattar. Félagshyggjumenn á borð við Ágúst Einarsson tala stundum um að rétt sé að leggja á umhverfisskatta í stað annarra skatta, t.d. tekjuskatta (auðvitað trúir enginn að félagshyggjumenn ætli sér að lækka aðra skatta, en það má liggja á milli hluta nú). Ef þessi áform þeirra gengju eftir kæmi það verst niður á þeim sem þetta fólk þykist stundum hafa mestan áhuga á að hjálpa, þ.e. þeim sem lægst hafa launin.