Helgarsprokið 21. mars 1999

80. tbl. 3. árg.

Borgarstjóri hefur sent þremur ráðuneytum bréf þar sem hann biður um liðsinni til að bregðast við mikilli fjölgun nektardansstaða í borginni en þeir munu nú vera sex sem gengur auðvitað ekki, að mati borgarstjóra. Ekki er alveg ljóst hvað borgarstjóri hefur hugsað sér að þrjú ráðuneyti geti gert í þessum efnum og líklega mun þessum stöðum hafa fækkað eitthvað á ný þegar ráðuneytin hafa markað sér heildstæða stefnu til framtíðar í málinu. En sérstæður málflutningur borgarstjóra í þessu máli hefur vakið upp ýmsar spurningar.

Borgarstjóri hefur gert athugasemdir við að erlendar stúlkur séu að dansa á þessum sex stöðum. Þessar stúlkur eru frá ýmsum löndum og hafa tekið þá ákvörðun að koma til Íslands til þess að afla sér fjár með því að fækka fötum í dansi. Við það er ekkert að athuga og kemur ekki öðrum við en þeim sjálfum og þeim sem borga fyrir dansinn. Það er ekki gott að sjá hvernig borgarstjóri blandast í málið. Hver bauð honum upp í dans? Dansararnir mæta sjálfsagt ýmsum fordómum og ekki til að bæta á það að borgarstjóri skuli gera óviðeigandi athugasemdir við að þeir séu ekki íslenskir.

Starf erótískra dansara er ekki það öruggasta í heimi. Tekjur eru óreglulegar og vinnutími erfiður. Borgarstjóri hefur yfirleitt lagt á það áherslu að hann sé sérstakur málsvari kvenna. Við nektardansinn starfa nær eingöngu konur. Það ætti því að vekja eftirtekt þegar borgarstjórinn leggur sig sérstaklega fram um að gera þessa atvinnugrein tortryggilega með aðdróttunum um að þar sé stundað ólöglegt athæfi af ýmsu tagi. Vafalítið er misjafn sauður í mörgu fé í þessum bransa eins og öllum öðrum en það gefur borgarstjóra ekki veiðileyfi á alla sem bjóða þessa þjónustu. Á sama tíma og borgarstjóri fer í herferð gegn kynsystrum sínum sem gleðja borgarbúa með nektardansi er tilkynnt að rýmka eigi í tilraunaskyni reglur um afgreiðslutíma veitingahúsa. Það er auðvitað ánægjuleg þróun en fráleitt að þær breytingar séu notaðar sem tylliástæða til að þjarma að nektardönsurum.  Kannski er ástæðan sú að nektardansmeyjar, á borð við þær sem borgarstjóri vill skipa aftur í spjarirnar, eru brjóstvörn tjáningarfrelsisins á vesturlöndum nú á ofanverðri tuttugustu öldinni.

Þunginn í baráttu einstaklinganna fyrir tjáningarfrelsinu hefur færst frá hinu pólitíska til hins persónulega á undanförnum áratugum. Með þessum gjörningi sínum staðfestir borgarstjóri enn og aftur að hann er ekki sérstakur málsvari kvenna heldur aðeins málsvari sérstakra kvenna.