Föstudagur 19. mars 1999

78. tbl. 3. árg.

Í leiðara Viðskiptablaðsins í vikunni er það gert að umtalsefni að íslenskir vinstri menn hafi eignað sér sigra jafnaðarmanna í öðrum löndum, ekki síst sigra Blairs og Schröders. Hinir erlendu jafnaðarmenn hafi þó flestir, að Oscar Lafontaine undanskildum, kastað gömlum kreddum um ríkisforsjá fyrir róða. Svo segir: „Þeir íslensku vinstri sinnar, sem halda Blair og Schröder á lofti eru hins vegar pólítískir tvíburar Oskars Lafontaine, sem Schröder neitaði að láta eyðileggja tiltrú atvinnulífs á ríkisstjórn sinni. Þeirra ær og kýr eru skattahækkanir og aukin ríkisútgjöld. Um hið síðarnefnda liggur fyrir urmull tillagna, en dæmi um hið fyrrnefnda eru m.a. óraunhæfar tillögur íslenskra jafnaðarmanna um tekjur af veiðigjaldi og makalaus umræða Jóhönnu Sigurðardóttur um fjármagnstekjuskatt sem verður ekki skilin öðru vísi en svo að hún vilji hækka þann skatt í 40%. Skipbrot þessarar stefnu er staðfest með afsögn Oskars Lafontaine, sem fjármálaráðherra og formanns þýskra jafnaðarmanna.“

Umhverfisskattar eru sannkallaðir ofurskattar. Þeir eiga ekki aðeins að vera tekjuöflun fyrir hið opinbera heldur eiga þeir einnig að breyta hegðun fólks, fá fólk til að velja annað en það mundi ella gera. Umhverfisskattar eru að auki tilvalin leið fyrir stjórnvöld sem vilja mismuna framleiðendum (t.d. innlendum framleiðendum á kostnað erlendra) enda er oft á reiki hvað er umhverfisvænt og hvað ekki. Er sparneytin bensínknúin bifreið sem gerð er úr 99% endurvinnanlegum efnum síður umhverfisvæn en stór og þung rafbifreið sem einungis er hægt að endurvinna 50%? Er einnota pappableia umhverfisvænni en margnota taubleia sem þarf að þvo með tilheyrandi þvottaefnum og vatns- og orkunotkun?   Umhverfisskattar leggjast mjög hart á þau fyrirtæki sem geta ekki dregið úr því sem skatturinn beinist gegn (t.d. útblæstri gróðurhúsalofttegunda). Slík fyrirtæki geta átt þann kost vænstan að flytja til annarra landa þar sem minni kröfur eru gerðar í umhverfismálum og oft notuð lakari tækni við orku- og iðnaðarframleiðslu. Umhverfisskattar geta því aukið mengun (t.d. útblástur gróðurhúsalofttegunda) á heimsvísu.