Fimmtudagur 18. mars 1999

77. tbl. 3. árg.

„Óvinir frelsisins rökræða ekki,“ skrifaði enski rithöfundurinn William Ralph Inge og bætti við: „þeir skrækja og skjóta!“. Hér á landi hafa stjórnlyndir menn ekki farið út í skotbardaga, en þeir hafa hins vegar gjarnan fylgt þeim sið erlendra félaga sinna, að reyna að bæta slakan málstað með upphrópunum og jafnvel aðdróttunum í garð andstæðinga sinna.

Þetta blasir oft við þegar deilt er um opinber útgjöld. Þegar ríkisútgjaldasinnum gengur illa að finna haldbær rök fyrir því að nauðungargjöld almennings skuli notuð til að fjármagna hugðarefni þeirra, reyna þeir í staðinn að ráðast á þá sem leyfa sér að gagnrýna útgjaldahugmyndirnar. Það séu í raun hinir verstu menn, hatursmenn þess sem átti að styrkja, og stjórnist af annarlegum og varhugaverðum hvötum: „Af hverju er þér illa við landsbyggðina?“ er sá spurður sem ekki vill auka styrki til þeirra sem búa úti á landi. „Hvað hafa sjómenn gert þér?“ er æpt á þann sem ekki vill að sérstök skattalög gildi um sjómenn. „Hvað hefur þú á móti menningunni?“ er hrópað með þjósti á þann sem styður ekki endalausar útgjaldatillögur sjálfskipaðra menningarvina.

Svo undarlegt sem það er, þá komast útgjaldasinnar stundum upp með frekju og útúrsnúninga af þessu tagi. Eðlileg umræða hlýtur hins vegar að krefjast þess, að útgjaldahugmyndum fylgi fullgild rök. Þar er að sjálfsögðu ekki nægilegt að leiða líkur að því að aukin framlög komi þiggjandanum að gagni, sýna verður fram á að réttlætanlegt sé að aðrir séu neyddir til að leggja eigur sínar til slíkra framlaga. Þangað til það hefur verið gert, er eðlilegt að menn berjist gegn útgjaldakröfum þrýstihópanna. Það er verulega ósanngjarnt að saka þá menn, sem taka að sér það vanþakkláta hlutverk að hvetja til sparnaðar, um að vera sérstakir andstæðingar þiggjendanna. Nær lagi væri að spyrja þá, sem harðast berjast fyrir auknum ríkisútgjöldum, hvað þeir hafi á móti skattgreiðendum í landinu.