Miðvikudagur 17. mars 1999

76. tbl. 3. árg.

Vef-Þjóðviljanum láðist í gær að senda „ungu fólki í samfylkingunni“ hátíðarkveðju en í gær voru lagðir verndartollar á innflutt grænmeti enda er íslenskt sólbaðsstofugrænmeti að koma á markaðinn. Til dæmis er lagður 30% tollur á tómata ásamt 198 króna viðbótargjaldi á hvert kíló! Er ástæða til að senda ungu samfylkingarfólki hamingjuóskir með að þetta helsta baráttumál þeirra sé í höfn enn eitt árið.

Í gær hélt félag stjórnmálafræðinema við Háskóla Íslands opinn fund vegna kosninganna í vor. Var hann með rólegra móti og ljóst að sá hiti sem einkenndi fundi stúdenta hér áður fyrr er löngu horfinn og var ekki annað að finna en hinn almenni stúdent væri tiltölulega sáttur við hlutskipti sitt. Tveir forsprakkar Stúdentaráðs sem glaðir þiggja nauðungargjöld af stúdentum, gerðu þó vanmáttuga tilraun til að sýna fram á að stjórnvöld létu stúdentum ekki næga fjármuni í té. Sem betur fer fékk þetta sjónarmið ekki mikinn stuðning annarra fundargesta, enda gera sér flestir grein fyrir því að skattgreiðendur láta nú þegar ærið fé af hendi rakna til stúdenta.

En þó fundurinn hafi verið á rólegu nótunum var hann ekki alveg laus við að hafa nokkurt skemmtigildi. Fyrir því stóð líffræðinemi nokkur, sem taldi að hér væri mikil „vá í landbúnaði“. Var þetta afar dramatískt og biðu fundarmenn spenntir að heyra hvaða ósköp væru að dynja yfir. Jú, hryllingurinn felst í því að hér er allt of mikið framleitt af svínakjöti sem veldur því að fólk hefur stórlega dregið úr áti annars kjötmetis.Var líffræðineminn þeirrar skoðunar að skjótt þyrfti að bregðast við ósköpunum og setja þegar reglugerð sem takmarkaði magn svínakjötsframleiðslunnar.

Því miður sáu sumir ekki grínið í þessum málflutningi og tóku undir með fyrirspyrjanda að rétt væri að athuga hvort setja þyrfti reglugerð til að draga úr framleiðslunni. Steingrímur J. Sigfússon frá grænrauðum var annar þeirra og var hann vitaskuld þeirrar skoðunar að markaðurinn mætti alls ekki ráða nokkru þarna frekar en annars staðar, en hinn var framsóknarmaðurinn Finnur Ingólfsson, sem þó er oft á tíðum hlynntur markaðsöflunum. Þarna hafði fyrirspyrjandi hins vegar greinilega hitt á snöggan framsóknarblett í Finni, því hann taldi að það þyrfti að stýra þessu og að þetta væri greinilega vandamál.

Svanhildur Jónasdóttir frá Þjóðvaka hinum nýja var ekki alveg fráhverf því að takmarka framleiðsluna eitthvað ef með þyrfti til að vernda umhverfið (fyrirspyrjandinn hafði nefnilega getið þess að hér væri allt að fara á kaf í svínaskít!), en var þó á því að ekki væri hægt að banna fólki að borða svínakjöt. Þegar talsmaður Þjóðvaka er annars vegar ber að þakka slíkt viðhorf, enda fer talsmönnum frelsis í landbúnaði fækkandi þar eins og alræmt er orðið. Björn Bjarnason frá Sjálfstæðisflokki varð einnig að svara þessari mikilvægu spurningu um nauðsyn þess að hækka verð á svínakjöti (hún var að vísu ekki orðuð þannig, en niðurstaðan yrði sú ef reglur um hámarksframleiðslu yrðu settar), en hann virtist ekki mjög trúaður á að nauðsynlegt væri að banna svínabændum að framleiða. Virtist honum reyndar, eins og mörgum öðrum fundarmönnum, þykja hugmyndin heldur brosleg.

Vef-Þjóðviljinn er þeirrar skoðunar að ef þessi mikla framleiðsla svínakjöts er það vandamál sem fyrirspyrjandinn áleit, þá sé um að gera að hvetja til áframhaldandi og aukins útflutnings grísa til Póllands.