Þriðjudagur 16. mars 1999

75. tbl. 3. árg.

Ísland er í hópi sex ríkja sem leggur á það mikla áherslu innan Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar WTO um þessar mundir að hvers kyns ríkisstyrkir í sjávarútvegi verði aflagðir og þar með öll höft og hindarnir í viðskiptum með fisk. Helstu rökin sem ríkjahópurinn færir fram eru þau að ríkisstyrkir stuðli að ofveiði og spilli fyrir eðlilegum viðskiptaháttum með sjávarafurðir. Í síðustu viku fóru fulltrúar landbúnaðarráðuneytisins íslenska hins vegar á fund í Noregi. Þar lagt var á ráðin ásamt fulltrúum frá 12 öðrum löndum hvernig koma mætti í veg fyrir það innan WTO að milliríkjaviðskipti með búvörur verði gefin frjáls. Þessar þjóðir telja að nota eigi innflutningshöft og aðra ríkisstyrki í landbúnaði til að „viðhalda byggðum til sveita“ og til að gæta að „fæðuöryggi“ eins og segir í tilkynningu frá landbúnaðarráðuneytinu.

Það er kostulegt að íslensk stjórnvöld skuli á sömu stundu leggja fram algjörlega gagnstæð sjónarmið um gildi frjálsra viðskipta innan WTO. En líklega fagnar „ungt fólk í samfylkingunni“ stefnu íslenska landbúnðarráðuneytisins ef marka má auglýsingu sem það keypti á dýrasta stað í Morgunblaðinu í síðustu viku. Í auglýsingunni var mælt með því að íslensk stjórnvöld beiti innflutningshöftum og niðurgreiðslum til að tryggja hag íslenskra garðyrkjubænda. Vart þarf að taka það fram að neytendur bera kostnaðinn. Um auglýsinguna segir í vikuritinu Vísbendingu í þessari viku: „Hér er um athyglisverða stefnubreytingu að ræða frá dögum Jóns Baldvins og Sighvatar í ríkisstjórn en þeir börðust einmitt hart fyrir frjálsum innflutningi landbúnaðarvara. Það virðist því ljóst að verndarstefna hefur náð undirtökum í Samfylkingunni og var þó síst þörf á enn einum framsóknarflokknum. Á næstunni má líklegast vænta auglýsinga frá Samfylkingunni gegn frjálsri samkepnni og litasjónvarpi.“

Á heimasíðu Heimdallar voru að þessu tilefni rifjuð upp nokkur orð Jóns Baldvins Hannibalssonar um þessi mál frá árinu 1995: „Hvar er komin von landbúnaðarins um útflutning á vistvænum afurðum íslensks landbúnaðar ef viðskiptaþjóðir okkar beittu okkur sömu þröngsýninni, sömu afturhaldsseminni, sömu verndarstefnunni og við bjóðum þeim?“