Mánudagur 15. mars 1999

74. tbl. 3. árg.

Samkvæmt fréttum ríkissjónvarpsins í gærkvöldi var það fellt út úr ályktun landsfundar Sjálfstæðisflokksins um menningarmál að fundurinn fagnaði byggingu tónlistarhúss. Þetta þýðir einfaldlega að meirihluti þeirra landsfundarfulltrúa sem tók þátt í umræðum og atkvæðagreiðslum um menningarmál telur það ekkert sérstakt fagnaðarefni að ríkið ætli að ausa 4 milljörðum króna í tónlistarhús. Hins vegar mun ekki hafa verið hróflað við þeirri stefnu að troða menningarhúsum upp á landsbyggðina en sem kunnugt er hafa bæði Siglfirðingar og Ísfirðingar frábeðið sér slíkar gjafir.

Það kemur svo sem ekki á óvart að landsbyggðarfólk gjaldi varhug við þessum menningarhúsunum enda eru slíkar „gjafir“ frá stjórnmálamönnum nefnilega fjármagnaðar af þiggjendunum sjálfum. Vafalaust hugnast landsbyggðarmönnum vart að á þá og aðra landsmenn sé lagður skattur til að byggja hús þar sem offramboð er á húsum. Stalín gaf Pólverjum eitt sinn menningarhöll í sovéskum hetjustíl í Varsjá sem Pólverjar fengu auðvitað að greiða fyrir sjálfir. Þótt að þar hafi verið dúndrandi diskótek í kjallarnum hafa sjálfsagt setið menningarfulltrúar frá Kreml á efri hæðum. En Sjálfstæðisflokkurinn leggur einmitt til að embætti menningarfulltrúa verði stofnuð vítt og breitt um landið. 

Þeir sem fylgdust með landsfundinum á netinu gátu séð að fram fór spennandi atkvæðagreiðsla á fundinum um tillögu frá Haraldi Blöndal og fleirum þar sem það var harmað að margir þingmanna Sjálfstæðisflokkisins hefðu á vordögum 1997 stutt hækkun sjálfræðisaldurs úr 16 árum í 18. Því miður voru þessar ávítur felldar með um 270 atkvæðum gegn 230.   Engu að síður hlýtur það að vera þingmönnum Sjálfstæðisflokksins umhugsunarefni að svo margir landsfundarfulltúar séu tilbúnir til að samþykkja harðorðar vítur á þá vegna þessa máls. Vef-Þjóðviljinn greindi á sínum tíma nokkuð ítarlega frá gangi þessa máls á Alþingi.

Á fundinum var einnig samþykkt að rét væri að leyfa ólympíska hnefaleika með eftirfarndi rökstuðningi: „Landsfundurinn skorar á stjórnvöld að aflétta banni frá 1956 við iðkun og sýningu á ólympískum hnefaleikum. Landsfundurinn telur það vera í valdi hvers einstaklings að velja og hafna hvaða íþrótt hann stundar hverju sinni.“