Helgarsprokið 14. mars 1999

73. tbl. 3. árg.

Skattkerfið hefur oft verið notað til að hygla ákveðnum atvinnugreinum eða jafnvel starfstéttum. Þekktasta dæmið frá seinni tíð er sérstakur tekjuskattsafsláttur sjómanna. En einnig hafa virðisaukaskattur og tryggingargjald verið mismunandi eftir atvinnugreinum þótt þar hafi margt verið jafnað hin síðari ár. Almennt virðast þau sjónarmið njóta vaxandi fylgis að rangt sé að mismuna fólki og fyrirtækjum á þennan hátt. Skattar eigi að vera almennir. Í fyrirspurnartíma á landsfundi Sjálfstæðisflokksins á föstudaginn lét fjármálaráðherra svo um mælt að sér þætti eðlilegt að sjómannaaflsátturinn, sem væri ekkert annað en niðurgreiðsla á launakostnaði útgerðarinnar, félli niður á næstu árum. Hann tók þannig undir að mismunun af þessu tagi væri óeðlileg. Þessu ber að sjálfsögðu að fagna.

Í sjónvarpsfréttum í liðinni viku var hins vegar sagt frá því að fjármálaráðherrann hefði opnað fyrir umræðu um umhverfisskatta á fundi sem verkalýðshreyfingin hélt. Umhverfisskattar snúast þó að verulegu leyti um að mismuna fyrirtækjum eða öllu heldur framleiðslu fyrirtækja. Ætlast er til þess að ríkið geti greint vörutegundir í umhverfisvænar og óumhverfisvænar og skattlagt þær síðarnefndu. Í ályktun fyrrnefnds landsfundar Sjálfstæðisflokksins er til dæmis lagt til að aðflutningsgjöld af bifreiðum sem nota umhverfisvæna orkugjafa verði felld niður tímabundið. Ýmsar nýjar tegundir bílvéla hafa komið á markaðinn undanfarin ár og margar þeirra eru blanda af gömlu dieselvélinni og einhvers konar rafmótor. Hvernig á að greina á milli þessara bíla og eyðslugrannra bíla með hefðbundnar bensín- eða dieselvélar? Það verður væntanlega komið undir einhverjum embættismönnum ríkisins ef þessar tillögur ná fram að ganga.

Í ályktun þessa landsfundar er einnig mælt með því að ýtt verði undir stuðning við listir með skattaívilnunum. Ágúst Einarsson þingmaður Þjóðvaka hefur kynnt svipaðar hugmyndir og hljóta sjálfstæðismenn að fyllast stolti að fá að gerast sporgöngumenn hans. Nú vefst að vísu sjálfsagt fyrir mörgum hvað flokkast undir „list“, en það verður væntanlega einhverra embættismanna að svara því ef framlög til „lista“ verða frádráttarbær frá skatti. Þá þurfa þeir t.d. að kveða upp úr með hvort erótískur dans sé listrænn og þá undir hvaða kringumstæðum. Mun hann þurfa að vera stiginn á fjölum venjulegs leikhúss til að teljast list, eða er í lagi að dansa erótískan listdans í þar til gerðum  erótískum listdanshúsum? Það getur orðið dálítið skrýtið að lesa reglurnar, sem menntamálaráðuneytið mun þurfa að semja um það hvað er list, verði slíkar hugmyndir að lögum. Og það er í raun furðulegt að samtök listamanna skuli ekki mótmæla slíkum hugmyndum, enda er afar stutt í að listamenn tapi endanlega sjálfstæði sínu gagnvart ríkisvaldinu verði þetta ofan á. Sá listamaður sem fara vill sérstakar og óhefðbundnar leiðir í listsköpun sinni mun standa verr að vígi fjárhagslega en aðrir. Þetta eykur enn frekar tengslin milli ríkis og listar en þó er orðið og er það síst til að örva sköpunargleði listamanna.

Það er því sama hvar borið er niður, hugmyndir um að atvinnugreinar fái misjafna skattalega meðferð eru af hinu illa. Það sem allar atvinnugreinar þurfa á að halda er einfalt skattkerfi með lágum sköttum sem mismuna engum. Svo vel vill til að þetta er nákvæmlega það sama og allur almenningur þarf. Einfalt og undanþágulaust skattkerfi er því í allra þágu og það er einungis vegna þröngra sérhagsmuna, skammsýni eða hvoru tveggja, sem menn láta sér detta í hug að óska eftir því að skattkerfið verði flækt frekar en orðið er.