Laugardagur 13. mars 1999

72. tbl. 3. árg.

Í fjölmiðlum hefur dag eftir dag verið greint frá málefnum tengdum skipinu Goðafossi. Skipverjar hafa verið settir í gæsluvarðhald og eru á allan hátt meðhöndlaðir sem stórglæpamenn. Í gær gengu fulltrúar hins opinbera svo langt að kyrrsetja skipið. Og hinn meinti glæpur, hver er hann? Jú, hann er að einhverjir skipverjar hafi ætlað að bjóða vöru, sem leyfð er hér á landi, án þess að láta hið opinbera njóta þess með sér. Er það svo alvarlegt afbrot að ástæða sé til að leggja í kostnað við að slægja Faxaflóann í leit að meintu týndu áfengi og að setja menn í gæsluvarðhald til að upplýsa afbrotið? Tæplega.

Það sem er öllu alvarlegra en meint „afbrot“ skipverja Goðafoss er orsök þessa máls og annarra álíka mála. Orsökin er eins og svo oft áður afskipti ríkisins af almenningi, í þessu tilviki áfengisstefna ríkisins. Alltof há gjöld af áfengi leiða til þess að fólk sér gróðavon í að smygla áfengi og brugga það og er þar með orðið að glæpamönnum án þess að vera í raun að gera nokkrum manni mein. Einu „slæmu“ afleiðingarnar eru að ríkið missir spón úr aski sínum, en ef marka má ýmis útgjöld þess og áform um ný er ríkið nú svo sem ekki á vonarvöl.

Það sem ríkið þarf að gera til að uppræta bæði smyglið og bruggið er að fella niður öll sérstök gjöld af áfengi og hætta að reyna að stýra neyslu fólks. Þá geta farmenn aftur snúið sér óskipt að siglingum og allur almenningur varið fé sínu eins og honum sýnist, hvort sem er í áfengi eða annað.