Föstudagur 12. mars 1999

71. tbl. 3. árg.

Í drögum að ályktun landsfundar Sjálfstæðisflokksins um menningarmál segir m.a.:

„Sjálfstæðisflokkurinn telur æskilegt að listgreinum sé gert jafnhátt undir höfði, að listamönnum sé skapað vænlegt starfsumhverfi og hann fagnar því að bygging tónlistarhúss sé loks að verða að veruleika.
Þá leggur Sjálfstæðisflokkurinn til að á stöðum þar sem ekki verða menningarhús, verði komið á fót störfum menningarfulltrúa í samvinnu við sveitarfélög um skiptingu kostnaðar.
Styðja þarf útflutning á íslenskri list, s.s. kvikmyndagerð, tónlist og bókmenntum.
Sjálfstæðisflokkurinn vill að kannaðir verði möguleikar á því að koma á fót öflugu þjóðarlottói þar sem listir, menning og vísindi yrðu meðal þeirra sem nytu góðs af.“

Það er nefnilega það: Ríkistónlistarhöll, ríkismenningarhús, menningarfulltrúar þar sem ekki vill betur til, útflutningsbætur og ríkislottó!

Hvernig væri að þeir sjálfstæðismenn sem sömdu þessi drög eða öllu heldur óskalista til jólasveinsins sem þeir álíta skattgreiðendur vera kynntu sér aðalstefnumál í stofnyfirlýsingu Sjálfstæðisflokksins þegar þingmenn Frjálslynda flokksins og Íhaldsflokksins gengu saman í einn flokk 25. maí 1929 en þar segir m.a.:

„Að vinna í innanlandsmálum að víðsýni og þjóðlegri umbótastefnu á grundvelli einstaklingsfrelsis og atvinnufrelsis með hagsmuni allra stétta fyrir augum.“

Ef Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki skipt um skoðun í grundvallaratriðum er ekki gott að sjá hvernig hann ætlar útskýra þá stefnu sem oftast er nefnd sósíalismi og birtist í drögunum um menningarmál.

Ríkissjónvarpið taldi sig í fyrrakvöld hafa heimildir fyrir því að skipverjar á Goðafossi hefðu brugðið á það ráð að skera gat á brúsa nokkra, sem þeir hefðu verið að flytja til landsins, og henda þeim svo fyrir borð svo þeir féllu ekki í hendur tollyfirvalda. Það hefði þá ekki verið svo vitlaust, því hvað var ekki haft eftir Þórði sjóara, „þó skyldi ég sigla um eilífan aldur, ef öldurnar breyttust í…“!