Fimmtudagur 11. mars 1999

70. tbl. 3. árg.

Sem kunnugt er hefur Alþingi skoðanir á ótrúlegustu málum og reynir að hafa áhrif á þau. Þetta á ekki síst við í lok kosningaþings, en þá vilja sumir þingmenn sýna kjósendum sínum afreksverkin.

Ein furðutillagan er frá Guðna Ágústssyni héraðshöfðingja „um landslið hestamanna“. Hann hefur fengið Alþingi til að samþykkja „að fela landbúnaðarráðherra að koma á fót landsliði hestamanna“ og ætlar því m.a. að koma fram fyrir Íslands hönd við hátíðleg tækifæri og opinberar móttökur. Á Alþingi er ekki flutt svo vitlaust mál að þingmaður sitji að því einn og Guðni fékk liðsinni frá Ágústi Einarssyni þingmanni og var hann þeirrar skoðunar að þarna væri „á ferðinni býsna snjöll hugmynd“ Þessir kappar drógu heldur ekki úr mikilvægi hugmyndarinnar í ræðum sínum og eftir að hafa meðtekið þá speki þykir mönnum mesta furða að íslensk þjóð skuli hafa lifað af hingað til án þessa landsliðs félaganna.

Önnur tillaga sem fékkst samþykkt í gær er ættuð frá þingmanninum Kristínu Ástgeirsdóttur og er „um fyrirbyggjandi aðgerðir til að draga úr þunglyndi kvenna.“ Nú er þunglyndi kvenna auðvitað hið leiðinlegasta mál, en er það virkilega í verkahring Alþingis að álykta um það sérstaklega? Varla, enda þótti þingmönnum þetta svo hlægilegt mál – þótt þeir þyrðu að vísu ekki að fella það – að hlátrasköll glumdu um þingsalinn í gær þegar það var borið upp. Ólafur G. Einarsson þingforseti taldi að svona skemmtileg atkvæðagreiðsla gæti ein og sér dregið úr þunglyndi, en á móti má benda á að fréttir af slíkum tillögum vega þar nokkuð á móti.

Þriðja „mikilvæga“ tillagan sem hér verður nefnd er frá Ísólfi Gylfa Pálmasyni sem fórnaði minni hagsmunum fyrir meiri (eða meiri fyrir minni – hann var ekki viss) á Alþingi í gær. Hún fjallar „um að setja á stofn vestnorrænan menningarsjóð“ með Færeyingum og Grænlendingum „í því skyni að efla samstarf landanna þriggja í menningarmálum.“ Þar fyrir utan er þingmaðurinn Ísólfur áhugamaður um að „efla vestnorræna vitund“ og mun hann vafalítið skýra mikilvægi þess fyrirbæris út fyrir skattgreiðendum. Það er nefnilega svo að þótt margir hafi gaman af að kynna sér listastarfsemi þessara þjóða og ýmsir vilji líka koma listsköpun okkar á framfæri hjá þeim, eru þeir til sem vilja halda fáeinum krónum eftir í veskinu sínu þegar skattar hafa verið greiddir. Tillaga sem þessi fækkar þeim óneitanlega, en það er sumum þingmönnum sama um.

Einn þeirra er hinn knái Magnús Árni Magnússon sem hafnað var í prófkjöri Þjóðvaka um daginn, eða „skrumskælingu lýðræðisins“ eins og talsmaður Þjóðvaka, Margrét Frímannsdóttir, kallaði prófkjörið. Magnús var afar ánægður með vestnorræna vitund Ísólfar Gylfa og færði traust rök fyrir mikilvægi þessara auknu ríkisútgjalda. Jú, sko málið er nefnilega það, að Magnús Árni hefur „aldrei komið til Færeyja og einungis farið í dagsferð til Kúlusúkk“ eins og hann upplýsti við þessar umræður. Eftir þessa merkustu yfirlýsingu hans á þingmannsferlinum hljóta landsmenn að vera sáttir við að greiða fyrir aukna vestnorræna vitund.