Mánudagur 1. febrúar 1999

32. tbl. 3. árg.

Í baráttunni fyrir prófkjör samfylkingarinnar gengu miklar sögur um bandalag Össurar Skarphéðinssonar og Jakobs Frímanns Magnússonar. Þrátt fyrir meint bandalag voru þeir þó víðs fjarri því að ná þeim árangri sem þeir stefndu að. Össur vantaði um 1500 atkvæði til að ná fyrsta sætinu af Jóhönnu og aðeins munaði 40 atkvæðum að hann endaði í 5. sæti. Allir frambjóðendur Þjóðvaka náðu hins vegar merkilega góðum árangri enda þóttu æði margir kjörseðlar merktir: 1. Jóhanna Sigurðardóttir 2. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir 3. Mörður Árnason.

Í gærkvöldi tilkynnti svo hin hámenntaða Guðný Guðbjörnsdóttir að hún ætlaði ekki að taka sæti á lista samfylkingarinnar heldur snúa sér að „akademískum störfum“. Þetta kemur auðvitað ekki á óvart þar sem Guðný galt þess augljóslega í prófkjörinu að hafa aldrei stundað hið ljúfa flökkulíf á milli flokka. Hámenntun dugar greinilega ekki þegar reynslu í að kljúfa flokka skortir.

„Þetta þykir mér leitt að heyra. Hér hafa orðið einhver mistök,“ sagði sýslumaður nokkur á dögunum þegar í ljós kom að embætti hans hafði um hríð reynt að ná opinberum gjöldum út úr látnum manni. Vissulega ættu það alltaf að geta talist mistök þegar hið opinbera leggur skatt á látið fólk, en svo er þó því miður ekki.

Sem kunnugt er þá skilja flestir eftir sig einhverjar eigur þegar þeir yfirgefa þennan heim. Eru menn jafnan afar sáttir ef þeim tekst það, enda líta þeir þá svo á að þeir séu að gefa börnum sínum eða öðrum nákomnum eitthvað nýtilegt að lokum. En það er eins og með annað að ríkið getur ekki látið þessa skilnaðargjöf eiga sig, heldur tekur til sín vænan hluta hennar. Þarna er ekki um nein mistök að ræða af hálfu ríkisins heldur vel skipulagða upptöku eigna hins látna. Þó hefur hinn látni þegar greitt ríkinu 40% tekjuskatta áður en eignin var keypt, 25% virðisaukaskatt við kaupin og oft á tíðum 1,25% árlegan eignaskatt alla tíð þar á eftir (en bara eignarskatturinn þýðir að andvirði eignarinnar er gert upptækt á tæpum 60 árum) auk ýmissa annarra gjalda sem skattheimtumenn hafa af hugmyndaauðgi galdrað fram.