Helgarsprokið 31. janúar 1999

31. tbl. 3. árg.

Þrátt fyrir slaka útkomu Alþýðubandalagsins í prófkjöri samfylkingarinnar í gær vill svo furðulega til að harðir vinstri menn unnu mikinn sigur innan hennar. Jóhanna Sigurðardóttir gjörsigraði Össur Skarphéðinsson. Össur keppti með öllum tiltækum ráðum um fyrsta sætið og var talinn vaxandi stjarna í vinstri hreyfingunni og einna líklegastur til að breyta henni með svipuðum hætti og gerst hefur í Bretlandi og Þýskalandi. Í prófkjörinu ber hins vegar svo við að hann lendir á eftir Jóhönnu og rétt mer Ástu Ragnheiði. Aðrir frambjóðendur sem líklegir voru til að ljá samfylkingunni þann frjálslynda blæ sem nauðsynlegur er til að hún geti keppt um stuðnings frjálslyndra borgarbúa fengu einnig skell. Er þá ekki síst átt við Jakob Frímann Magnússon og Magnús Árna Magnússon. Eini Alþýðuflokksmaðurinn sem nær kjöri í líklegt þingsæti er fyrrum Þjóðviljaritstjórinn Össur Skarphéðinsson. Þessi fyrrum Alþýðubandalagsmaður er raunar eini Alþýðuflokksmaðurinn í átta efstu sætunum en þar hefur Kvennalistinn hins vegar 2 fulltrúa þrátt fyrir að Alþýðuflokkshólfið hafi fengið tífalt fleiri atkvæði en Kvennalistinn!

Samfylkingin svonefnda hefur með þessu prófkjöri tekið þá stefnu að keppa við Grænt framboð um stuðning þröngs hóps harðra vinstri manna. Fyrir nokkrum árum höfðuðu kratar hins vegar nokkuð til  frjálslyndra og ekki síst ungra kjósenda vegna þess að Jón Baldvin lét í það skína að Alþýðuflokkurinn berðist fyrir auknu frjálsræði í íslensku þjóðfélagi. Þó þessu tali hafi ekki fylgt miklar efndir hefur flokkurinn þó búið að þessu og staðið tiltölulega sterkt meðal frjálslynds fólks. Sú staðreynd að Jóhanna mun leiða hið sameinaða sundrungarframboð þýðir að þessu tímabili í sögu vinstri hreyfingarinnar er lokið – í bili að minnsta kosti. Engum dettur í hug að halda því fram að Jóhanna, Ásta Ragnheiður, Bryndís og Guðrún Ögmundsdóttir muni færa nokkuð til aukins frjálsræðis komist þær í aðstöðu til að hafa áhrif.

Svo dæmi sé tekið er afstaða þessara kvenna til einkavæðingar á fjármagnsmarkaði einfaldlega sú að hún komi ekki til greina. Jóhanna kom í veg fyrir slíka einkavæðingu í stjórn Alþýðuflokks og Sjálfstæðisflokks á síðasta kjörtímabili og hefur barist hart gegn þeirri einkavæðingu sem fram hefur farið síðan. Hið eina sem kemst að í huga hennar og hinna kvennanna þriggja þegar kemur að pólitík er að krefjast aukinna ríkisútgjalda og ríkisumsvifa og berjast gegn niðurskurði og einkavæðingu hjá hinu opinbera.

Eins og menn muna sjálfsagt gekk Jóhanna Sigurðardóttir úr Alþýðuflokknum fyrir nokkrum árum eftir að hafa tapað fyrir Jóni Baldvin Hannibalssyni í formannskjöri. Í hádeginu í dag sagði Jóhanna hins vegar að nú eftir prófkjörið ættu allir að vinna sem „ein heild“ og „snúa bökum saman“ sama hvaða útkomu þeir hefðu fengið í prófkjörinu. Einmitt. Jóhanna gerði einnig mikið úr þáttökunni í prófkjörinu en hún er engu að síður talsvert minni en þátttaka í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins á Reykjarnesi á dögunum en það er helmingi minna kjördæmi, frambjóðendur voru helmingi færri og prófkjörið bundið við stuðningsmenn Sjálfstæðisflokksins.

Ýmsu var spáð fyrir um úrslit prófkjörsins. Meðal þeirra sem spáðu var Svanur Kristjánsson prófessor í stjórnmálafræði. Um Svan hefur reyndar verið sett fram sú kenning að kenningar sem hann aðhyllist séu um leið afsannaðar, svo oft hafa spár hans beðið lægri hlut fyrir kosningaúrslitum. Svanur sagði í viðtali nú í síðustu viku að „prófkjör samfylkingarinnar væri búið til af körlum og fyrir karla“. Í fimm efstu sætum eru hins vegar fjórar konur. Jafnframt virtist Svanur hafa mikla trú á að Jakob Frímann næði góðum árangri þótt honum þætti það mjög miður enda Svanur harður vinstri maður. Það væri athugandi fyrir samfylkinguna að fá Svan til að spá sér miklu tapi í þingkosningunum í vor en það myndi sennilega tryggja henni stórsigur!