Þriðjudagur 2. febrúar 1999

33. tbl. 3. árg.

Það er kunnara en frá þurfi að segja að örlæti borgarstjórans í Reykjavík eru lítil takmörk sett þegar borgarbúum er gefinn kostur á að greiða nýja og hærri skatta. En rausnarskapurinn á sér fleiri hliðar. Fyrir nokkrum dögum sendi borgarstjórinn öllum borgarbúum litprentaðan auglýsingabækling um skíðasvæðin við borgina. Og ekki nóg með það heldur fylgdi frímiði í heilan dag í lyfturnar fyrir alla fjölskylduna. Daginn sem bæklingurinn og frímiðinn góði var borinn í hús hækkaði hitinn í borginni um 20°C og byrjaði að rigna hressilega. Síðan hefur hvorki fryst né stytt upp. Miðinn gildir til 10. febrúar.

Það getur verið athyglivert að sjá þegar háskólamenntað fólk leggur saman tvo og tvo og fær út fimm og virðist ekki sjá neitt athugavert við útkomuna. Samkvæmt frétt í Morgunblaðinu þann 27. janúar sl. er þess konar stærðfræði iðkuð athugasemdalaust við Háskólann á Akureyri. Þar er sagt frá niðurstöðum könnunar á vegum rannsóknarstofnunar HA, þar sem fram kemur að tekjur 65% fjölskylda á Norðurlandi vestra duga ekki til framfærslu fjölskyldunnar. Einnig kemur fram að tæplega 40% kvenna í kjördæminu vinna við opinbera þjónustu eða stjórnsýslu. Í stað þess að draga þá augljósu ályktun að  slæmur efnahagur fjölskyldna á Norðurlandi vestra gæti stafað af því hve stór hluti kvennanna starfar á vegum hins opinbera með tilheyrandi lág laun er þveröfug ályktun dregin: flutningur opinberrar þjónustu út á land getur eflt og aukið atvinnutækifæri kvenna!  Væri ekki nær að hinir lærðu spekingar við Háskólann á Akureyri veltu því fyrir sér hvernig minni umsvif hins opinbera eykur svigrúm einkafyrirtækja og svigrúm þeirra einstaklingana sem búa á einstökum svæðum til að þróa þá atvinnustarfsemi sem hentar þeim og þeirra aðstæðum. Eða er lausnin á atvinnuleysi kvenna á landsbyggðinni kannski sú að Landsíminn setji upp útbú frá 118 í hverju kjördæmi?