Þriðjudagur 26. janúar 1999

26. tbl. 3. árg.

Í Viðskiptablaðiðinu 30. desember er fjallað um einkafyrirtækið Læknisfræðilega myndgreiningu sem rekur röntgenþjónustu í Domus Medica. Er rætt við Þorkel Bjarnason framkvæmdastjóra fyrirtækisins um reksturinn og segir hann að rekstur þeirra sýni að hægt sé að standa í einkarekstri á heilbrigðissviði og láta hann ganga upp um leið og kostnaður hins opinbera lækki. Í upphafi hefði enginn haft trú á því framtaki þeirra að kaupa segulómsjána þar sem það hefði verið svo dýrt tæki. Þorkell sagði jafnframt að LM væri ekki enn komin á þann taxta sem spítalarnir hefðu verið með þegar samkeppnin hófst þó fimm ár væru liðin. Þá telja margir að þjónusta á þessu sviði hafi batnað mikið frá því sem var. Þorkell sagði að ekki væri vafi á að spítalarnir hefðu orðið að breyta mikið sinni þjónustu eftir að LM kom til. Hjá LM er boðið upp á alla læknisfræðilega meingreiningu: tölvusneiðmyndir, röntgen og segulómsjána.
Í lok viðtalsins segir Þorkell svo: „Það hafa ýmsar hugmyndir vaknað um frekari þjónustu enda er þetta til hagsbóta fyrir alla aðila. Ríkisstjórnin telur sig spara stórar fjárhæðir á að selja bankana en ég held að hún græddi meira á að selja Landspítalann.“

Um síðustu helgi héldu sjálfstæðismenn í Reykjavík ráðstefnu um heilbrigðismál undir yfirskriftinni: Er hægt að veita heilbrigðisþjónustu á annan og ódýrari hátt? Frummælendur voru Sigurður Guðmundsson, landlæknir, Steinn Jónsson, forstöðulæknir, Ásta Möller, formaður félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, Benedikt Jóhannesson, stærðfræðingur og Einar Páll Svavarsson, framkvæmdastjóri Domus medica. Óhætt er að segja að þar hafi kveðið við ferskan tón í umræðu um málefnið, þar sem harmagrátur og krafan um hærri fjárframlög hafa verið nær einráð. Steinn Jónsson benti  á að heilbrigðislerfið hafi orðið útundan á undanförnum árum þegar ríkið hefur smám saman verið að draga sig út úr atvinnurekstri. Hann sagði sömu lömál gilda um heilbrigðiskerfið og annan rekstur og að þar sem annars staðar séu markaðslausnir hagkvæmar en ríkisfrosjá ekki.

Benedikt Jóhannesson stærðfræðingur rifjaði upp hvernig mestar framfarir verða þegar frelsi einstaklinganna er sem mest og benti á hvernig aukið frelsi í lyfsölu hefur á stuttum tíma stórlækkað lyfjaverð. Hann fjallaði um illa skilgreindan kostnað verka innan heilbrigðisþjónustunnar og að þegar einstaka stofnanir spara endar ríkið alltaf með að borga það sama eða jafnvel meira. Einar Páll Svavarsson tók undir þessi sjónarmið og benti á fjölda dæma um einkarekstur í heilbrigiðisgeiranum sem dregið hafa úr útgöldum og auðveldað sjúklingum aðgegni að þjónustu.

Sem dæmi um umfangið nefndi hann að í Domus Medica vinna 10% allra þeirra lækna sem starfa á Íslandi. Þær lausnir sem lagðar voru til á þeirri tilvistarkreppu sem heilbrigðiskerfið er í voru endurvakning tryggingahugtaksins, og að skilið verði á milli unsjónar og kaupa á heilbriðisþjónustu. Leggja þurfi af föst fjárlög til heilbrigðisstofnana og leggja áherslu á að fjármagn fylgi sjúklingum. Að lokum var bent á mikilvægi þess að einkavæðing komi í kjölfar frumkvæðis þeirra sem verkin munu vinna en ekki miðstýrðra ráðuneytisákvarðana um hvað skuli gera og hvað ekki.