Mánudagur 25. janúar 1999

25. tbl. 3. árg.

Fyrir nokkrum vikum glímdu þeir á Bylgjunni, Alfreð Þorsteinsson borgarfulltrúi R-listans og Eyþór Arnalds varaborgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins. Eyþór taldi R-listanum farast stjórn borgarinnar illa úr hendi og væru ýmis tiltæki vinstri manna í hæpnasta lagi. Al Þorsteinsson lét engan bilbug á sér finna og svaraði því til að enginn gæti fundið neitt að ákvörðunum R-listamanna enda væru einungis borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins á þeirri skoðun að vinstri menn brytu lög: „Þið hafið kært og kært en það hefur bara ekkert komið út úr því“ sagði Alfreð yfirlætislega og Eyþór setti hljóðan.

Alfreð taldi viðstöddum og hlustendum semsagt trú um það að sjálfstæðismenn hefðu „kært og kært“ en kærum þeirra hefði öllum verið hafnað. Nú liggja staðreyndir málsins vegar fyrir. Sjálfstæðismenn kærðu afbrigðilega tilhögun R-listans á innkomu varamanna og sjálfstæðismenn kærðu þá ákvörðun R-listans að formaður borgarráðs fengi ekki að stýra fundum ráðsins heldur skyldi Ingibjörg Sólrún Gísladóttir stjórna fundunum sjálf.

Úrskurðað hefur nú verið um kærurnar báðar. Úrskurður um fundarstjórnina var birtur í síðustu viku og niðurstaðan er einföld: R-listinn er jafnan talinn hafa brotið sveitarstjórnarlög og fallist er á allar kröfur sjálfstæðismanna. Og hver skyldi nú hafa kveðið upp þessa úrskurði? Það gerði settur félagsmálaráðherra, Halldór Ásgrímsson, formaður Framsóknarflokksins.

Annars er hún sérstök, áherslan sem Ingibjörg Sólrún Gísladóttir leggur á að enginn annar en hún sé fundarstjóri borgarráðs. Það er nefnilega önnur manneskja formaður borgarráðs en Ingibjörg virðist alls ekki treysta henni til fundarstjórnar. Og það er ekki svo að þessi formaður borgarráðs, sem alls ekki má stýra fundum, sé hlutlaus aðili eða jafnvel sjálfstæðismaður. Nei, formaður borgarráðs er Sigrún Magnúsdóttir oddviti framsóknarmanna í borgarstjórn. Og henni er ekki treyst til að stýra fundum.